Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Valur 101-77 | Keflvíkingar komnir með heimavallaréttinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Michael Craion skoraði 16 stig í kvöld.
Michael Craion skoraði 16 stig í kvöld. vísir/bára
Keflvíkingar tryggðu sér heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar með öruggum sigri á Val í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en svo sigu Keflvíkingar fram úr og kláruðu leikinn í þriðja leikhluta. Lokatölur 101-77.

Valsmenn byrjuðu af krafti og komust í 8-2 strax í upphafi. Keflvíkingar voru þó ekki lengi að koma sér aftur inn í leikinn og voru komnir með yfirhönda strax eftir fyrsta leikhlutann. Þeir bættu aðeins í fyrir hlé og leiddu með 15 stigum þegar flautað var til leikhlés, staðan þá 56-41.

Í þriðja leikhluta skildu síðan endanlega leiðir. Vörn Keflavíkinga var illviðráðanleg og Valsmönnum gekk ekkert að skora. Dominique Rambo var ekki búinn að skora körfu utan af velli á þessum tímapunkti og Valsmenn hvað eftir annað í tómu veseni bæði í vörn og sókn.

Staðan eftir þriðja leikhluta var 82-54 og ljóst að Keflvíkingar myndu fara með sigur af hólmi. Í fjórða leikhluta fengu minni spámenn mínútur og jafnt á með liðunum lengst af. Munurinn hélst svipaður út leikinn og lokatölur 101-74, 27 stiga sigur Keflavíkur staðreynd sem þar með tryggja sér heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Af hverju vann Keflavík?

Þeir eru einfaldlega mun betra lið en Valur. Til þess að Valsmenn eigi möguleika gegn Keflvíkingum þurfa þeir að hitta á sinn besta dag og slæman dag hjá Suðurnesjamönnum. Það gerðist ekki í kvöld og spurning hvort Valsmenn hafi einfaldega verið ánægðir með að sætið í deildinni væri tryggt.

Gestirnir gerðu allt of mikið af tæknifeilum í leiknum og voru með 21 tapaðan bolta í kvöld sem vitaskuld er alltof, alltof mikið. Þegar heimamenn lokuðu vörninni í þriðja leikhluta áttu Valsarar engin svör og þar að auki fengu heimamenn oft á tíðum mjög auðveld stig í sókninni.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá Keflavík voru margir sem lögðu í púkkið. Sjö leikmenn skoruðu yfir 10 stig og voru þeir Ágúst Orrason og Michael Craion stigahæstir með 16 stig. Craion bætti síðan við 8 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Reggie Dupree og Gunnar Ólafsson voru sömuleiðis öflugir en Gunnar fór af velli þegar um 15 mínútur voru eftir og kom ekkert aftur inná eftir það vegna smávægilegra eymsla.

Hjá Val var Illugi Auðunsson bestur með 10 stig og 8 fráköst. Aðrir geta töluvert betur.

Hvað gekk illa?

Það gekk margt illa hjá Val og sérstaklega í þriðja leikhluta, þá var eiginlega ekkert sem gekk vel. Töpuðu boltarnir voru allt of margir og gegn Keflavík eru 21 tapaður bolti einfaldlega ávísun á tap. Þegar lykilmaður eins og Dominique Rambo á slakan dag, líkt og í kvöld, er það heldur ekki að hjálpa til.

Hjá Keflavík er aðeins hægt að setja út á vörnina í fyrri hálfleik þar sem þeir fá á sig 41 stig. Þeir bættu hins vegar heldur betur fyrir það í þriðja leikhlutanum.

Hvað gerist næst?

Keflavík á leik á Sauðárkróki gegn Tindastóli í næstu umferð. Liðin eru jöfn að stigum í 3.-4.sæti og liðið sem vinnur endar í 3.sætinu. Liðin vilja auðvitað mæta með sigur á bakinu í úrslitakeppnina og ég myndi giska á að þau vilji frekar mæta Þór heldur en KR í fyrstu umferð úrslitanna. Þórsrar þó engir draumaandstæðingar.

Valsmenn eiga leik sem skiptir þá litlu máli, gegn Þór frá Þorlákshöfn

Sverrir Þór: Maður velur sér ekkert andstæðinga
Sverrir Þór var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.Vísir
„Við vorum með yfirhöndina nánast allan tímann og einhverjum fimmtán stigum yfir í hálfleik, en varnarlega ekki nógu góðir. Þriðji leikhluti var algjörlega frábær, vörnin frábær og við fengum mikið af auðveldum körfum og það var góð stemmning í liðinu,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn á Val í Dominos-deildinni í kvöld.

„Þeir voru held ég komnir með einhver 7 stig eftir níu mínútur í þriðja leikhluta. Ég get ekki verið annað en ánægður með það og við töluðum um í hálfleik að við þyrftum að leggja meira á okkur varnarlega. Við gerðum það og ég er kátur með það.“

Keflvíkingar fengu framlag frá mörgum í kvöld og sjö leikmenn sem skoruðu yfir 10 stig í leiknum.

„Það er gott að það séu að koma stig úti um allt. Við þurfum að fá stig frá okkar aðalmönnum og þeir sem eru að spila eitthvað minna þurfa að skila sínu líka.“

Með sigrinum í kvöld tryggðu Keflvíkingar sér heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og þeir eiga úrslitaleik við Tindastól á Króknum í næstu umferð um þriðja sæti deildarinnar.

„Við þurfum að vinna þar en það er ansi erfitt að vinna þarna fyrir norðan, þeir eru með hörkulið. Við förum þangað og gefum allt í þetta og ætlum þangað til að sækja sigur og reyna að komast í 3.sætið. Nú höfum við nokkra daga til að undirbúa það og við þurfum að spila hörkuvel. Við þurfum hörkuframlag frá öllum hópnum þar.“

Eins og staðan er núna munu þeir sem lenda í 3.sæti deildarinnar mæta Þór frá Þorlákshöfn í úrslitakeppninni en 4.sætið fær fimmfalda Íslandsmeistara KR. Sverrir sagði Keflvíkinga ekki hugsa stöðuna út frá því hverjum þeir munu hugsanlega mæta.

„Við viljum enda sem hæst og við eigum möguleika á 3.sætinu og eftir leikinn á Króknum þá sér maður hverjum maður mun mæta. Maður velur sér ekkert andstæðinga, þetta er allt erfitt. Við erum búnir að tryggja topp fjóra og það er einn leikur eftir sem við ætlum að vinna.“

Ágúst: Ekki góð frammistaða af okkar hálfu
Ágúst Björgvinssonvísir/daníel
Ágúst Björgvinsson þjálfari Valsmanna var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í tapinu gegn Keflavík í Dominos-deildinni í kvöld.

„Við byrjðum ágætlega og virtumst mæta gíraðir í leikinn en það sem hjálpaði þeim var að þeir voru að fá fullt af aukaskotum þarna í byrjun leiks. Svo náðu þeir 10 stiga forskoti og eftir það gáfum við eftir og þeir gáfu í. Eftirleikurinn var auðveldur,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi að leik loknum.

Í þriðja leikhluta gekk allt á afturfótunum hjá Valsmönnum og þeir skoruðu 7 stig á fyrstu níu mínútum leikhlutans.

„Andlega var erfitt að vera kominn undir, þeir fundu lyktina af því og gáfu í.“

Valsmenn mæta Þór frá Þorlákshöfn í síðustu umferðinni, í leik sem skiptir litlu máli fyrir Valsmenn. Ágúst var þó ánægður að það væri einn leikur eftir af tímabilinu.

„Með sigri í kvöld hefði þessi leikur skipt öllu máli. Ég er feginn að hann er eftir því ég hefði ekki viljað að þetta væri síðasti leikur tímabilsins. Við eigum einn leik eftir og eigum að geta bætt fyrir þetta í kvöld. Þetta var ekki góð frammistaða af okkar hálfu,“ sagði Ágúst að lokum.

Hörður Axel: Að okkar mati með eitt besta varnarliðið í deildinni
Hörður Axel Vilhjálmssonvísir/bára
Hörður Axel Vilhjálmsson var öflugur hjá Keflavík í kvöld, bæði í vörn og sókn. Hann var ánægður með sigurinn.

„Við vorum ekki nógu sáttir með fyrri hálfleikinn, sérstaklega varnarlega. Mér fannst við geta skorað þegar við vildum. Varnarlega töluðum við um að við þyrftum að stíga upp og vera grimmari og neyða þá í erfiða hluti. Það tókst ágætlega,“ sagði Hörður en varnarleikur Keflvíkinga í þriðja leikhluta var til fyrirmyndar og áttu Valsmenn fá svör.

„Að okkar mati erum við með eitt besta varnarliðið í deildinni og vorum særðir eftir síðasta leik þar sem við fengum á okkur 99 stig. Mér finnst það eitthvað sem á ekki að sjást hjá okkur, við erum það kröftugir varnarlega. Við vorum tilbúnir að bæta upp fyrir það og í hálfleik fannst okkur við ekki vera búnir að gera nógu mikið.“

Keflvíkingar fara á Krókinn í lokaumferð deildarinnar og leika þar úrslitaleik um 3.sæti deildarinnar en bæði liðin eru örugg með heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Það er gott að fá svona leik rétt fyrir úrslitakeppni sem skiptir máli, sem er úrslitaleikur gegn góðu liði. Við getum nýtt það til að gíra okkur í úrslitakeppnisham strax. Það skiptir miklu máli að maður fái alvöru leiki í lok deildarkeppninnar og við getum nýtt þennan leik vel.“

„Við fáum nokkra daga í hvíld eftir álagið mikla upp á síðkastið út af þessu leikjafyrirkomulagi sem er skrýtið, en það er önnur umræða.“


Tengdar fréttir

Sverrir Þór: Maður velur sér ekkert andstæðinga

"Við vorum með yfirhöndina nánast allan tímann og einhverjum fimmtán stigum yfir í hálfleik, en varnarlega ekki nógu góðir. Þriðji leikhluti var algjörlega frábær, vörnin frábær og við fengum mikið af auðveldum körfum og það var góð stemmning í liðinu,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn á Val í Dominos-deildinni í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira