Skoðun

Hagfræði auðkýfinganna

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Þeir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Þetta vita allir og finnst flestum ferlegt. En þó ekki svo að það borgi sig að gera eitthvað í því. Og af hverju ekki? Jú, fræðingar hafa talið okkur í trú um að það sé svo óábyrgt, eigin­lega alveg galið.

Hér á Spáni er þróunin við það að afhjúpa hagsæld þessarar „ábyrgu“ leiðar. Tökum dæmi: Áður sáu lítil fyrirtæki venjulegast um rekstur skólamötuneyta í sinni heimabyggð, þar til fyrir nokkrum árum að ný skilyrði voru sett við útboð á slíkum rekstri en þau kváðu á um að fyrirtækin yrðu að hafa himinháa ársreikninga til að geta tekið þátt.

Með þessu átti að koma í veg fyrir skömm eins og þá þegar óstöndugt fyrirtæki lagði upp laupana og skildi skólakrakka í einum grunnskóla í Granada eftir með tóma diska. Fleiri lög hafa einnig hjálpað til þannig að í dag er þessi rekstur að mestu í höndum fjögurra stórfyrirtækja. Þau þéna vel og foreldrarnir borga minna fyrir matinn. Eru þá ekki allir bara kátir?

Ja, ekki þeir sem verða að borða þennan mat sem er nær­ingar­rýr og ólystugur, ekki foreldrar vannærðra barnanna, ekki fólkið sem vinnur í mötuneytunum sem nær ekki lengur endum saman og ekki umhverfið en hagræðið felst meðal annars í því að flytja fæðið útum allt land úr risastórum verksmiðjum. Það er að segja, þetta er gott fyrir örfáa auðkýfinga sem hafa efni á því að senda krakka sína í einkaskóla þar sem alvöru matur er borinn á borð.

Ef hagfræðingar telja þetta góða þróun þá var ég aldeilis plataður þegar ég lét segja mér að hagfræðin fengist við það hvernig flestir gætu haft það sem best.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×