Skoðun

Samtal um snjallsíma

Valgerður Sigurðarsdóttir skrifar
Það er mikilvægt að við hefjum af alvöru samtalið um góða og slæma notkun snjallsíma á skólatíma í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Hvað vilja nemendur, kennarar og foreldrar?

Á borgarstjórnarfundi í dag verður flutt tillaga Sjálfstæðisflokksins um stýringu á notkun snjallsíma í skólum. Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að útfærslu á því hvernig hægt er að stýra notkun snjallsíma á skólatíma. Markmiðið væri að ýta undir betri notkun og koma í veg fyrir truflandi áhrif þegar á kennslu stendur. Reykjavíkurborg væri með því að taka ábyrga afstöðu um notkun snjallsíma barna og ungmenna.

Skólastarf verður alltaf undir áhrifum tækniþróunar, sem er gott mál, enda mikilvægt að nýta tækni við kennslu. Það þarf hins vegar að finna hið gullna jafnvægi milli gagnlegrar og truflandi notkunar. Verkefni skólanna er m.a. að auka félagsfærni, námsgetu og þátttöku barna í skólastarfinu, tæknin getur bæði stutt við það en líka dregið úr.

Við berum okkur gjarnan saman við önnur lönd og lítum þá oft til Norðurlanda. Þar eru mun strangari reglur varðandi notkun síma á skólatíma en við þekkjum. Símar eru almennt ekki leyfðir í kennslustundum. Flestir skólar nota „símahótel“, þ.e. kassa með hólfum og þangað fara allir símar og kassinn læstur þar til skóladegi lýkur. Það eru um 7 ár síðan byrjað var að nota „hótelin“ og eru áhrifin almennt talin mjög jákvæð á nemendur og kennslu. Við þurfum þó ekki að leita út fyrir landsteinana til þess að sjá góðan árangur af því að takmarka snjallsíma á skólatíma. Varmárskóli hefur t.a.m. ekki leyft snjallsíma og hefur skólabragurinn tekið breytingum til hins betra. Kennarar hafa svigrúm til að tengja notkun snjallsíma við námsefnið og það hefur gefið góða raun. Fleiri skólar og sveitarfélög hér á landi hafa verið að vinna að sambærilegum verkefnum.

Mikilvægt er að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar fái frjálsar hendur til að útfæra reglur varðandi notkun snjallsíma á skólatíma. Útfærslan verður að vera unnin í fullu samráði við skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra. Því er brýnt að hefja samtal á milli allra aðila skólastarfinu öllum til heilla.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks




Skoðun

Sjá meira


×