Handbolti

Karabatic: Ísland getur barist um titla á næstu árum

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Haukur Þrastarson spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti á móti Frakklandi en hann er aðeins 17 ára.
Haukur Þrastarson spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti á móti Frakklandi en hann er aðeins 17 ára. vísir/epa
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, gat lítið annað gert en óskað Frakklandi til hamingju með sigurinn á sunnudaginn í LANXESS-höllinni í fyrrakvöld.

Strákarnir okkar fengu níu marka skell, 31-22, gegn heimsmeisturunum en Ísland spilaði án Arons Pálmarssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar sem meiddust á móti Þýskalandi.

Franska liðið gekk á lagið í seinni hálfleik og rúllaði yfir strákana okkar en meðalaldur í liðinu lækkaði niður í rétt tæp 23 ár þegar að Haukur Þrastarson og Óðinn Þór Ríkharðsson komu inn í liðið.

„Þegar á heildina er litið er Frakkland með frábært lið. Það er ríkjandi heimsmeistari og kláraði þennan leik mjög fagmannlega. Ég er samt mjög stoltur af liðinu mínu. Við verðum komnir á toppinn aftur eftir þrjú ár,“ sagði Guðmundur og brosti á blaðamannafundi eftir leikinn.

Luka Karabatic, varnar- og línumaður Barcelona og franska landsliðsins, tók undir með Guðmundi. Hann sér strákana okkar vera komna aftur í fremstu röð á næstu árum þegar að ungu mennirnir verða orðnir aðeins eldri.

„Ég vil óska Íslandi til hamingju með framgöngu sína á þessu heimsmeistaramóti,“ sagði Karabatic.

„Eins og Guðmundur sagði er þetta ungt lið en ég tel framtíðina bjarta hjá Íslandi því það eru hæfileikaríkir leikmenn í þessu liði. Það getur farið að berjast aftur um titla eftir nokkur ár,“ sagði Luka Karabatic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×