Handbolti

Bestu menn leikjanna á HM í handbolta þurfa að „gefa“ verðlaunin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson með verðlaun fyrir að vera kosinn maður leiksins á HM í Katar 2015.
Aron Pálmarsson með verðlaun fyrir að vera kosinn maður leiksins á HM í Katar 2015. Vísir/EPA
HM í handbolta hefst í kvöld með tveimur leikjum og mótshaldarar munu áfram velja mann leiksins í hverjum leik. Verðlaunaafhendingin hefur hinsvegar breyst talsvert á milli heimsmeistaramóta.

Íslenska handboltalandsliðið spilar fimm leiki í riðlinum á HM í Þýskalandi og Danmörku og vonandi tekst einhverjum af strákunum okkar að ná því að vera maður leiksins í einhverjum þeirra.

Danski íþróttavöruframleiðandinn Hummel er nú orðin styrktaraðili verðlaunanna fyrir besta mann leiksins á HM.





Hingað til hefur maður leiksins fengið úr, styttu eða annan viðlíka eigulegan hlut til minningar um að hafa verið maður leiksins í leik á stórmóti. Það verður ekki nú. Hummel mun fara nýja leið.

Maður leiksins fær vissulega áfram heiðurinn og lófaklapp strax eftir leik en hann fær engin venjuleg verðlaun samkvæmt frétt á heimasíðu Alþjóðahandknattleikssambandsins.

Hummel mun þess í stað gefa íþróttabúnað í þeirra nafni til ungra handboltakrakka sem að öðrum kosti hafa ekki tækifæri til að eignast handboltaföt, handboltaskó eða bolta.

Íþróttabúnaðurinn verður afhentur handboltakrökkunum á Partille Cup í sumar en það er stærsta unglingamót heims í handbolta. Þetta mun verða gert í samstarfi við „We Care” verkefnið. Hummel mun á endanum gefa 1152 krökkum handboltabúnað.

Eftir leikinn mun maður leiksins fá Hummel bol og viðurkenningarskjal um að hann hafi verið besti maður vallarins í viðkomandi leik og að íþróttabúnaðurinn hafi verið gefinn í hans í nafni.

Dr Hassan Moustafa, forseti IHF, vonast til að leikmennirnir taki þessi nýung með opnum örmum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×