Handbolti

Aron Pálmars og Björgvin Páll fjarri sínu besta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson.
Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Samsett/HSÍ
Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson eru tveir af reyndustu leikmönnum íslenska handboltalandsliðsins og góð frammistaða þeirra er algjört lykilatriði ef vel á að fara á HM í handbolta í Þýskalandi og Danmörku.

Frammistaða Arons og Björgvins Páls heillaði hinsvegar ekki marga í sex marka tapi á móti Noregi á æfingamótinu í Osló í gær.

Aron skoraði aðeins tvö mörk þrátt fyrir að reyna sjö skot í leiknum og Björgvini Páli tókst ekki að verja eitt einasta skot af þeim tólf sem Norðmenn skutu á hann.

Þessi frammistaða þeirra tveggja gefur tilefni til þess að hafa áhyggjur. 















Íslenska handboltalandsliðið á eftir að mæta Brasilíumönnum og Hollendingum á þessu æfingamóti í Noregi og þessir tveir lykilmenn íslenska liðsins fá því tvö tækifæri til að finna taktinn og koma sér í gang.

Það skiptir íslenska liðið mjög miklu máli að besti sóknarmaðurinn og aðalmarkvörðurinn séu að spila vel ætli þetta fyrsta stórmót liðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar að ganga vel. Báðir voru í góðum gír á því síðasta undir stjórn Guðmundar sem voru Ólympíuleikarnir í London 2012.

Aron Pálmarsson skoraði þá 37 mörk í 6 leikjum og komst í úrvalslið mótsins og Björgvin Páll varði meðal annars 4 af 13 vítum sem hann reyndi við.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×