Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Keflavík 80-95 | Sigurganga Keflavíkur heldur áfram

Rúnar Þór Brynjarsson skrifar
vísir/daníel
Keflvíkingar voru í heimsókn hjá Þórsurum í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld í mikilvægum leik í Dominos deild karla í körfubolta.

Bæði lið byrjuðu leikinn af miklum krafti og skiptust liðin á að skora. Staðan eftir fyrsta leikhluta 25-23 fyrir heimamönnum.

Keflvíkingar voru hægir á stað en rifu sig í gang í öðrum leikhluta og var staðan 39-48 fyrir Keflavík í hálfleik.

Þriðji leikhluti var mikil skemmtun og stefndi allt í spennandi fjórða leikhluta. Munurinn á liðunum fyrir fjórða leikhluta var einungis 5 stig. 

Keflvíkingar betri í fjórða og síðasta leikhlutanum og urðu lokatölur 80-95 fyrir Keflavík og eru þeir enn taplausir á toppnum með 12 stig. Þórsarar sitja hinsvegar ennþá á botni deildar með 0 stig eftir sex umferðir.

Afhverju vann Keflavík?

Staða liðanna í deildinni segir ýmislegt um getumun liðanna og hann kom í ljós í kvöld. Þórsarar mega þó eiga að þeir létu toppliðið hafa fyrir hlutunum.

Bestu menn vallarins 

Khalil Ahmad skoraði 30 stig fyrir Keflvíkinga og Hörður Axel Vilhjálmsson var duglegur að finna liðsfélaga sína; endaði leikinn með 13 stoðsendingar.

Hjá heimamönnum var Hansel Atencia einnig með 30 stig.

Hvað er næst?

Þórsarar eru á leið í fallbaráttuslag gegn Njarðvíkingum í Njarðvík. Næsti leikur Keflvíkinga er á morgun, aftur í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem þeir mæta B-liði Þórs í Geysisbikarnum.

Viðtöl við þjálfara beggja liða koma inn á Vísi á morgun.

Lárus: Sýndum mikla baráttu
Lárus JónssonÞór TV / thorsport.is
Þrátt fyrir fimmtán stiga tap var Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, þokkalega sáttur með leikinn.

„Fínasti leikur við náðum alltaf að koma okkur inní hann þrátt fyrir að Keflavík hafi verið komið með tíu til fimmtán stiga forystu. Hæðarmunurinn taldi í lokin,“ sagði Lárus.

Þórsarar voru án Terrance Motley og Mantas Virbalas í kvöld og telur Lárus það hafa skipt sköpum í leiknum. Keflvíkingar voru með 16 fleiri fráköst en Þór í leiknum.

„Terrance verður klár í næsta leik. Hann kemur með mikla reynslu og ákveðna ró. Þetta er leikmaður sem við getum látið fá boltann á mikilvægum mómentum í leikjum og líta strákarnir mikið upp til hans.“

Þórsarar eru á leið í fallbaráttuslag gegn Njarðvíkingum í Njarðvík og hlakkar Lárus mikið til næsta leiks með fullt lið og þá Terrance og Mantas undir körfunni.

Hjalti Þór: Það verður enginn meistari í október
Hjalti Þór Vilhjálmsson leggur á ráðinvísir/Daníel
„Fínn sigur gegn baráttuglöðum Þórsurum,“ sagði Hjalti Þór, þjálfari Keflavíkur, eftir 80-95 sigur hans manna á Akureyri í kvöld.

„Þeir lögðu sig fram og voru þrælerfiðir í kvöld,“ sagði Hjalti um Þórsliðið, sem hann þjálfaði áður.



Keflvíkingar byrjuðu leikinn rólega en í 2. leikhluta fór liðið að spila betur og náði góðri forystu fyrir hálfleik. Hjalti og hans með eru á toppnum eftir sex umferðir með fullt hús stiga en segir Hjalti að þeir séu ennþá að bæta sig sem lið og er hann ekki mikið að spá í töfluna.

„Það verður enginn meistari í október. Það er ennþá mikið eftir og við einbeitum okkur á að taka bara einn leik í einu.“

Keflavík tekur á móti B-liði Þórs í Geysisbikarnum á morgun og reiknar Hjalti með að leyfa bekknum að spreyta sig í þeim leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira