Handbolti

Snorri Steinn: Var örugglega að bulla eitthvað í hita leiksins

Gabríel Sighvatsson skrifar
Snorri Steinn heldur tölu yfir sínum mönnum í kvöld.
Snorri Steinn heldur tölu yfir sínum mönnum í kvöld. vísir/daníel
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var vægast sagt svekktur eftir 27-27 jafntefli gegn Selfoss í kvöld.

„Við vorum komnir í góða stöðu og með góð tök á leiknum. Svolitlir klaufar að hleypa þeim aftur inn í leikinn. Selfoss er með undirtökin undir lokin og hefðu getað unnið leikinn þannnig að ég er bara ánægður með þetta stig.“

Valsliðið var með leikinn í hendi sér en missti sigur niður í jafntefli á lokamínútunum.

„Við spiluðum ágætlega. Það sem gerist er að við fáum á okkur ódýra tæknifeila og klikkum (á færum).“

Snorri Steinn var ekki par sáttur með nýtingu Vals í kvöld og taldi það vera orsök tapaðra stiga á tímabilinu.

„Ég er mjög óánægður með nýtinguna okkar og færanýtinguna almennt. Það er ekkert bara sagan í þessum leik, við verðum bara að laga það og drengirnir vita það sjálfir. Það vantar mikið upp á þar og ég þori nánast að fullyrða það – án þess að vera búinn að greina leikinn – að ef við værum með aðeins eðlilegri færanýtingu þá værum við að landa þægilegum sigri.“

Þegar leiknum lauk rauk Snorri Steinn beint að dómara leiksins til að segja sína skoðun á einhverju sem Snorri var ósáttur með.

„Ég var örugglega að bulla eitthvað í hita leiksins. Það var fótur á Hauk og ég hélt það væri eitthvað eftir. Ég veit ekki hvort ég hafi haft rétt fyrir mér eða ekki.“

Valur byrjar tímabilið með 3 stig eftir jafnmarga leiki sem er ekki slæmt en ekki frábært.

„Ég er gríðarlega óánægður með einn leik af þessum þremur og hann truflar mig. Strákarnir svöruðu því vel í dag og eiga hrós skilið. Eðlilega eftir frammistöðuna á móti FH var þetta þung vika en þeir komu vel inn í þennan leik og löguðu fullt af hlutum og það voru klárlega batamerki á leik okkar.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.