Valur er komið á toppinn í Olís-deild kvenna eftir öruggan sjö marka sigur, 26-19, á nýliðum HK í Origo-höllinni.
Valsstúlkur höfðu tögl og haldir á leiknum í raun frá upphafi en silfurliðið frá því í fyrra var með fjögurra marka forskot í hálfleik, 12-8.
Íris Björk Símonardóttir lokaði markinu og Valur jók forystuna í síðari hálfleik. Munurinn varð að endingu sjö mörk, 26-19.
Sandra Erlingsdóttir og Alina Molkova skoruðu báðar fimm mörk fyrir Val sem er á toppi Olís-deildarinnar með ellefu stig.
Díana Kristín Sigmarsdóttir var í sérflokki í liði HK. Hún skoraði átta mörk en nýliðar HK eru í sjötta sæti deildarinnar með sex stig.
