Matur

Einfalt með Evu í heild sinni: Sjávarréttasúpa, kræklingur og Rocky Road súkkulaðibitar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eva Laufey er frábær kokkur eins og hún sýnir í þáttunum Einfalt með Evu.
Eva Laufey er frábær kokkur eins og hún sýnir í þáttunum Einfalt með Evu.

Einfalt með Evu fór í loftið á Stöð 2 á dögunum en í þáttunum matreiðir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir frábæra en á sama tíma einfalda rétti.

Uppskriftirnar verða ávallt aðgengilegar hér á Vísi. Í síðustu viku var sjötti þátturinn sýndur í opinni dagskrá en hér að neðan má sjá þáttinn í heild sinni.

Þar fyrir neðan má síðan sjá allar uppskriftir þáttarins:

 Matarmikil sjávarréttasúpa

  • 2 msk olía
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ rautt chili
  • 3 stilkar vorlaukur
  • 250 lax, roðlaus og beinlaus
  • 250 g blandaðir sjávarréttir
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 1 L soðið vatn + 1 ½ fiskiteningur
  • 1 límóna
  • 2 paprikur, appelsínugul og rauð
  • Handfylli kóríander
  • ½  msk fiskisósa
  • 250 g risarækjur, ósoðnar
  • ½ - 1 msk karrí
  • 1 tsk paprikukrydd
  • Cayenne pipar á hnífsoddi
  • Salt og pipar, magn eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið niður lauk, hvítlauk, chili og vorlauk og steikið upp úr olíu þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn.
  2. Skerið papriku smátt og bætið út í pottinn, steikið áfram þar til paprikurnar eru mjúkar.
  3. Saxið niður ferskt kóríander og bætið út í ásamt risarækjum og blönduðum sjávarréttum, Kryddið til með salti, pipar, karrí, paprikukryddi og cayenne pipar.
  4. Hellið soðnu vatni út í pottinn ásamt fisktening og fiskisósu.
  5. Leyfið súpunni að malla í 5 – 7 mínútur og hellið síðan kókosmjólkinni saman við, leyfið súpunni að malla í lágmark 20 mínútur en hún er enn betri ef hún fær að malla dágóða stund.
  6. Bætið laxinum út í pottinn rétt áður en þið berið súpuna fram en það tekur enga stund að elda laxinn.
  7. Saxið niður kóríander, vorlauk og dreifið yfir súpuna.

MÁNUDAGSFISKURINN Í SPARIBÚNING

Fyrir 3-4

  • 800 g þorskhnakkar, roð- og beinlausir
  • Olía
  • Smjör
  • Salt og pipar
  • 4 dl mjólk
  • 4 dl hveiti

Aðferð:

  1. Skerið þorskhnakka í jafn stóra bita, setjið hvern bita ofan í mjólkina og því næst ofan í skál með hveiti, salti og pipar.
  2. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið (ég myndi segja ca. 3 mínútur).
  3. Það er mjög mikilvægt að pannan sé mjög heit þegar fiskurinn fer á en annars verður hjúpurinn ekki nógu stökkur. Bætið smjöri út á pönnuna í lokin og hellið vel yfir fiskinn, það er nauðsynlegt að hafa nóg af smjöri!

    Blómkálsmauk
  • 1 stórt  blómkálshöfuð
  • 2 msk mjör
  • 1 dl rjómi
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið blómkálið bita og sjóðið í söltu vatni þar til blómkálið er orðið mjúkt.
  2. Hellið soðvatninu af og setjið blómkálið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota, bætið smjöri  við og rjóma eftir smekk (magnið fer eftir því hversu þykkt maukið á að vera).
  3. Kryddið til með salti og pipar.

    Lauksmjör
  • Smjör
  • 1 laukur

Aðferð:

  1. Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar, setjið í pott ásamt smá smjöri og steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn. Þá bætið þið enn meiri smjöri saman við sem þið hellið síðan yfir fiskinn þegar hann er klár.

*Ég flysjaði gulrætur, skar í tvennt og sauð í söltu vatni ásamt ferskum aspas í nokkrar mínútur. Það passar fullkomnlega með þessum fiskrétt!

Hörpudiskur á volgu maíssalati

  • 2 ferskir maísstönglar í hýðinu
  • Salt og pipar
  • 4 msk smjör
  • 1 hvítlauksrif
  • ½ rauð paprika
  • 1 lárpera
  • 2 tómatar
  • 1 límóna
  • 1 msk smátt söxuð basilíka
  • 1 dl hreinn fetaostur
  • 10 stk hörpuskel
  • 1 sítróna

Aðferð:

  1. Skafið maískornin af maískólfinum, hitið smjör á pönnu og steikið kornin þar til þau eru mjúk í gegn. Saxið hvítlauksrif og bætið út á pönnuna, kryddið til með salti og pipar.
  2. Setjið maískornin til hliðar.
  3. Skerið papriku, tómata og lárperu afar smátt. Blandið grænmetinu saman við maískornin.
  4. Saxið niður basilíku og bætið henni einnig saman við maíssalatið.
  5. Kreistið safann úr einni límónu yfir salatið og hrærið.
  6. Skolið og þerrið hörpuskelina mjög vel.
  7. Steikið hörpuskelina á pönnu á háum hita upp úr smjöri í þrjár mínútur á annarri hliðinni og í 2-3 mínútur mínútu á hinni hliðinni. Kryddið með salti og pipar ásamt því að kreista safann úr hálfri sítrónu yfir rétt í lokin.  
  8. Setjið maíssalat á disk og leggið hörpudiskinn yfir.
  9. Sáldrið hreinum fetaosti yfir salatið áður en þið berið réttinn fram.

 KRÆKLINGUR Í HVÍTVÍNSRJÓMASÓSU

  • 800 g kræklingur
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • ½ rautt chili
  • 3 msk smjör
  • 2 dl hvítvín
  • 2 dl rjómi
  • 2 msk smátt söxuð steinselja
  • 2 msk smátt saxaður kóríander
  • Safi úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Skolið kræklinginn afar vel, hendið opinni eða skemmdri skel. Þið getið athugað hvort skelin sé lifandi með því að banka aðeins í hana ef hún er smávegis opin, ef hún lokar sér er hún lifandi og þá má borða hana.
  2. Hitið smjör á pönnu, skerið niður lauk, hvítlauk og chili mjög smátt og steikið upp úr smjörinu þar til laukarnir eru mjúkir í gegn.
  3. Hellið kræklingum út á pönnuna og steikið í smá stund, eða þar til skeljarnar fara að opna sig.
  4. Bætið hvítvíni út á pönnuna og leyfið því að sjóða niður, því næst fer síðan rjómin og skvetta af sítrónusafa.
  5. Kryddið til með salti og pipar.
  6. Saxið niður ferskan kóríander og steinselju,  stráið yfir réttinn. Hrærið öllu vel saman og berið fram á fallegu fati með sítrónubátum.  

 ROCKY ROAD SÚKKULAÐIBITAR

  • 100 g mini sykurpúðar
  • 200 g dökkt súkkulaði
  • 200 g mjólkursúkkulaði
  • 100 g ristaðar pekanhnetur
  • 100 g ristaðar möndlur
  • 100 g nóa kropp
  • 100 g rjóma karamellukúlur  

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði.
  2. Saxið niður pekanhnetur.
  3. Setjið sykurpúða,helst litla, nóa kropp, karamellukúlur, ristaðar möndlur og  pekanhnetur í pappírsklætt bökuform.
  4. Hellið súkkulaðinu yfir og inn í kæli þar til súkkulaðið er orðið stíft.
  5. Skerið súkkulaðikökuna í litla bita og berið fram.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×