Skoðun

Á fertugsafmæli Samtakanna '78

María Helga Guðmundsdóttir skrifar
Í dag eru fjörutíu ár liðin frá stofnun Samtakanna ‘78. Áratugirnir síðan félagið hóf baráttu sína fyrir réttindum hómósexúalfólks, eins og þá var að orði komist, hafa verið viðburðaríkir. Þegar samtökin hófu göngu sína voru viðhorfin í þjóðfélaginu slík að sumir neyddust hreinlega til að flýja land undan ofsóknum, útskúfun og ofbeldi. Langt fram á níunda áratuginn máttu orðin hommi og lesbía ekki heyrast í útsendingum Ríkisútvarpsins og slúðurblöð landsins fluttu æsifréttir af „kynvillingum“ sem „veiddu“ sér fórnarlömb á vínhúsum bæjarins.

Þá hefði verið erfitt að ímynda sér að fólk myndi leita hingað um alþjóðlega vernd vegna kynhneigðar eða kynvitundar eða að íslensk ríkisstjórn hefði það yfirlýsta markmið að koma Íslandi í fremstu röð í réttindamálum hinsegin fólks, eins og nú er raunin.

Og þó. Þrátt fyrir mótlætið var metnaðarfull framtíðarsýn til staðar innan Samtakanna ‘78 frá upphafi. Það má t.d. greina í nafnlausum pistli frá félaginu sem birtist í Stúdentablaðinu 9. mars 1979:

Við ætlum okkur að ná algerum jöfnuði fyrir lögunum með því að þar verði ekki tilgreint kyn persónanna þegar fjallað er um kynferðisleg atriði sem lög eru látin varða. Og enn hafa ekki verið sett hér lög sem tryggja jafnan rétt hómósexúalfólks eins og nú eru til sums staðar erlendis, til dæmis hvað varðar rétt til atvinnu og húsnæðis, forræði barna við skilnað foreldra, fræðslu í skólum, erfðarétt sambýlisfólks og margt fleira.

Í dag, fjörutíu árum síðar, eru margar þessara breytinga orðnar að veruleika. Það hefði aldrei orðið nema vegna þess að kynslóð eftir kynslóð af baráttufólki hefur beitt sér af fórnfýsi gegn fordómum og fáfræði og krafist virðingar, viðurkenningar og réttarbóta. En þótt ótrúlegt megi virðast eru þær enn ekki allar í höfn. Enn er til dæmis engin löggjöf sem tryggir jafnan rétt til atvinnu og húsnæðis og almennt bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar.

Samhliða breytingum á samfélaginu hafa Samtökin ‘78 sjálf þróast. Félag hómósexúalfólks, eins og það hét fyrst, er í dag félag hinsegin fólks á Íslandi og beitir sér m.a. fyrir réttindum homma og lesbía, trans og intersex fólks og tví-, pan- og eikynheigðra. Ráðgjafarþjónustan, sem á tímabili var veitt í heimasíma formannsins, er nú í höndum færra fagaðila; fræðslustarfsemin teygir anga sína frá samfélagsmiðlum inn í skólastofur, frá íþróttafélögum til Útlendingastofnunar, og tugir unglinga eiga öruggan vettvang í hinsegin félagsmiðstöð í viku hverri. Félagið hefur aldrei staðið betur fjárhagslega og getur fagnað þessum tímamótum með því að koma fleiri mikilvægum verkefnum í góðan farveg.

Regnhlífin hefur opnast og réttindabaráttan þróast; ný markmið hafa bæst við upptalninguna frá 1979. En inntakið í markmiðum félagsins er óbreytt: að tryggja siðferðisleg og lagaleg réttindi, miðla þekkingu, efla sjálfsmynd hinsegin fólks, vera vettvangur og vopn í baráttunni, og að tengjast inn í víðtækari baráttu fyrir mannréttindum heima og heiman. Þeirri baráttu er fjarri lokið, en nú þegar 40 ár eru að baki horfum við bjartsýn fram á veginn.

Til hamingju með afmælið.
Skoðun

Skoðun

Á meðal þeirra sem við þjónum

Ása Laufey Sæmundsdóttir,Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir,Guðný Hallgrímsdóttir,Hreinn Hákonarson,Kristín Pálsdóttir,Sigrún Margrétar Óskarsdóttir,Toshiki Toma skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.