Innlent

Þingkonur gengu út undir ræðu Sigmundar: „Þetta var tilfinning sem vaknaði og þurfti að hlýða“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í pontu. Fyrir aftan hann má sjá forseta Alþingis gjóa augunum út í þingsal en ætla má að hann sé að fylgjast með þingkonunum sem þá voru á leið út úr salnum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í pontu. Fyrir aftan hann má sjá forseta Alþingis gjóa augunum út í þingsal en ætla má að hann sé að fylgjast með þingkonunum sem þá voru á leið út úr salnum. Mynd/Skjáskot
Fjórar þingkonur gengu út úr sal Alþingis í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins steig í ræðustól. Greint var frá þessu á vef RÚV síðdegis. Halla Signý Kristjánsdóttir, ein þingkvennanna sem gekk út, segir að ákvörðunin hafi verið byggð á tilfinningu sem vaknaði í þingsal og þurfti að hlýða.

Atvikið átti sér stað á meðan þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu í lokaatkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs sem samþykkt voru í dag.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknar.Vísir/Vilhelm
Myndavélar RÚV fönguðu atvikið á filmu en á upptöku má sjá Þórunni Egilsdóttur, þingflokksformann Framsóknarflokksins, stíga fyrsta úr sæti og ganga út. Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknarflokki fylgdi í kjölfarið, Helga Vala Helgadóttir úr Samfylkingunni og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fylgdu á hæla henni í þessari röð.

Ekki náðist í Þórunni Egilsdóttur við vinnslu þessarar fréttar en Halla Signý flokkssystir hennar segir í samtali við Vísi að ekkert samráð hafi verið haft um gjörninginn fyrir fram. Þingkonur hafi heldur ekki komið saman til að ræða sérstaklega viðbrögð við Klaustursmálinu og þeim þingmönnum sem hlut eiga að máli.

„En þetta var tilfinning sem vaknaði og þurfti að hlýða. Maður er að standa upp fyrir konum, maður getur ekki meira gert.“

Halla Signý sat ekki á þingi þegar Sigmundur var enn í Framsóknarflokknum, en var þó meðlimur flokksins á þeim tíma. Hún segir aðspurð að andrúmsloftið á þingi í kjölfar þess að Klaustursupptökurnar voru birtar hafi verið þungt.

„Það er búið að vera erfitt, það er óvissa um það hvernig á að taka á þessu. Mér fannst Lilja ramma þetta mjög vel inn. Hún talaði fyrir hönd þeirra sem þarna urðu fyrir þessu ofbeldi. Það liggur deyfð yfir, það liggur sorg yfir þingheimi.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.