Skoðun

MR og Versló keppa við Asíu

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Það vill oft gleymast að íslenska menntakerfið á í harðri alþjóðlegri samkeppni. Sú yfirsjón leiðir af sér að áherslur í skólakerfinu eru rangar. Það getur reynst dýrkeypt.

Góð menntun er og verður undirstaða velmegunar. Þegar fram líða stundir munu lífsgæði hér á landi ráðast af því hversu vel okkur tekst upp við að byggja upp hátækniiðnað í útflutningi. Ekki er hægt að treysta á að náttúruauðlindir dragi vagninn á 21. öldinni eins og á þeirri tuttugustu.

Alþekkt er að margir nemendur í Asíu, og raunar mun víðar, eru metnaðarfullir. Þeir verða því erfiðir keppinautar þegar kemur að tækniþróun. Þar liggur hin raunverulega samkeppni; við erlenda nemendur en ekki á milli Hagaskóla og Valhúsaskóla eða Versló og MR, eins og sumir telja.

Róttækra breytinga er þörf í menntakerfinu til að mæta þeirri áskorun að mennta hæfileikaríkt fólk í tækni. Hið opinbera þarf að stíga til hliðar. Árangri íslenskra barna í PISA-könnunum hefur enda farið hrakandi síðustu ár. Það er ekki nógu stórt skref að rétta hlut einkarekinna grunnskóla, eins og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði nýlega til.

Sveitarfélög og ríkið þurfa að gefa skólakerfinu lausan tauminn. Það á að treysta kappsömu skólafólki. Gefa því frjálsar hendur til reka góða skóla með ólíkar áherslur og námskrár. Við það fá foreldrar og eldri nemendur tækifæri til að velja þann skóla sem þeir telja að sé best fallinn fyrir hvern og einn. Það þarf að leggja skólakerfið í hendur einkaframtaksins en hið opinbera ætti að halda áfram að greiða með nemendum til að tryggja að allir geti sótt góða menntun. Það er mikið undir.
Skoðun

Skoðun

Taktu tvær

Arnar I. Jónsson,Heiðrún Björk Gísladóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.