Viðskipti innlent

Leið­sögu­menn segja Gui­de to Iceland hafa klúðrað jólum hátt í 40 ferða­manna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Snæfellesnesi í desember.
Frá Snæfellesnesi í desember. Getty/Patrick Gorski
Finnbogi Þorkell Jónsson og Halldór Kristinn Haraldsson ætla ekki framar að taka að sér verkefni fyrir ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland. Þeir segjast sjaldan hafa lent í eins miklu klúðri og í tveggja daga ferð um Snæfellsnesið með 36 ferðamönnum frá Asíu.

Það sé sem betur fer ekki í menningu ferðamanna frá þeirri heimsálfu að kvarta. Hefðu ferðamennirnir verið frá Bandaríkjunum eða Bretlandi hefði allt orðið brjálað. Framkvæmdastjóri Guide to Iceland vísar til mannlegra mistaka.

Finnbogi segir frá í færslu á Facebook þar sem hann birtir tölvupóst til Guide to Iceland að ferðinni lokinni. Þar rekur hann það sem gekk á í  ferðalaginu á aðfangadag og jóladag. Gengur hann svo langt að velta fyrir sér hvort fyrirtækið muni „stúta stærstu atvinnugrein þjóðarinnar“, þ.e. ferðamennskunni.

Finnbogi Þorkell Jónsson, leikari og leiðsögumaður.

Stútfullir bílar

Finnbogi rekur hvernig þeir félagarnir hafi skráð sig í Snæfellsnestúr en tilkynnt á Þorláksmessu að þeir hefðu verið settir á allt annan túr, Suðurstrandartúr sem sé miklu lengri. Þeir hafi afþakkað hann. Eftir pósta fram og til baka hafi þeim verið tjáð að „það væri búið að redda þessu“ fyrir hann. Þau skilaboð hafi gefið tóninn.

Í framhaldinu hafi fjöldi fólks verið meiri en þeir hefðu haft upplýsingar um og rétt náð að troða þeim í bílana sem þeir höfðu. Ekki eitt sandkorn til viðbótar hafi komist fyrir. Þá hafi hópurinn verið bókaður í gistingu í Borgarnesi sem passi alls ekki fyrir tveggja daga ferð um Snæfellsnes.

„Það detta amk 1-2 stopp út af planinu vegna myrkurs á þessum árstíma. Kúnnar ekki sáttir við það. En við gjörþekkjum svæðið og bættum upp með öðrum stoppum. Við mælum með því að þeir sem skipuleggi túrana prófi að fara í þá sjálf.“

Frá Borgarnesi.Vísir/Vilhelm

Jólamat reddað á síðustu stundu

Þegar athugað var með fyrrnefnt hótel var tilkynnt að ekkert veitingahús væri opið og hvergi í Borgarnesi. Hótelinu yrði sömuleiðis læst klukkan 23.

„Við förum á fullt í að hringja í allt Borgarnes og á endanum vildi svo heppilega til að Kiddi þekkti vertinn á Hótel Hafnarfjalli og hann gat boðið hópunum í jólahlaðborð á 7000 kall. Hins vegar sagðist hann aldrei á 20 ára ferli hafa heyrt um að fyrirtæki væri með 36 manns á ferðinni á aðfangadag og væri ekki búið að plana dinner. Helmingurinn af báðum hópunum kom í dinnerinn en hinn ákvað að vera uppá hóteli með samlokur og snakk af N1 sem það hafði keypt um morgunin og átti að vera nesti daginn eftir. Allsstaðar var lokað.“

Þá vilji ferðalangar sem gisti á hótelum geta slakað á með vínglas, kaffi eða te. Hótelvaktmaðurinn hafi tjáð þeim að Guide to Iceland hefði afþakkað veitingaþjónustu.

Um tveggja daga ferð um Snæfellsnes var að ræða.Getty/Patrick Gorski

„Excel-fyrirtæki“

Þeir félagar telja fleira til. Ekki hafi verið hugsað fyrir veitingaþjónustu og klósettum við skipulagningu.

„Eftir miklar hringingar og vesen komumst við að því að einu veitingastaðurinn og klósettin sem voru opin á Snæfellsnesi var á Rjúkanda á Vegamótum og 24/7 klósettin á Malarrifi. Þannig að ekki var hægt að nálgast veitingar eða heita drykki frá 8:00-16:00 og ekki klósett frá 12-16 í ferðinni.“

Þetta verði að vera í lagi með 36 manna hóp. Á meðal ferðamanna var eldra fólk og unglingsstrákur sem veiktist á leiðinni.

„Þetta var disaster fyrir þau.“

Þá hafi ekki verið nægilega vel staðið að bókun í hellaskoðun. Hún verið bókuð á þeim stutta tíma dags þegar birta er í boði auk þess sem aðeins var pantað fyrir 30 manns. Eftir mikla reikistefnu hafi hellaleiðsögumennirnir gefið grænt ljós á að allir fengju að skoða.

„... en ítrekuðu að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem þetta Excelfyrirtæki klúðrar bókunum.“



Þakka fyrir þjóðerni ferðamannanna

Leiðsögumennirnir Finnbogi og Halldór Kristinn segja kúnnana hafa spurt hvort ferðir væru alltaf svo illa skipulagðar. Einhverjir ætli að skrifa eða blogga um ferðina.

„Við viljum benda á að flestir þessara ferðamanna eru frá Asíu og það þarf ansi mikið til að þau kvarti. Það er ekki í þeirra kúltur. Ef þau hefðu verið Bandaríkjamenn eða Bretar þá hefði allt orðið brjálað. Við björguðum því sem bjargað varð en viljum benda á að bakvið excelið er fólk á ferðalagi, jafnvel að upplifa ævintýri lífsins þannig að þið getið ímyndað ykkur vonbrigðin þegar þau átta sig á að leiðsögumaðurinn er að redda og gera og græja allan tímann hluti sem eiga að vera í lagi.“

Finnbogi segist hafa fengið símtal frá fulltrúa Guide to Iceland. Honum var tilkynnt að hann fengi ekki frekar vinnu hjá fyrirtækinu og sagðist hann vera sáttur við það.

Davíð Ólafur Ingimarsson, framkvæmdastjóri Guide to Iceland.

„Mannleg mistök“

Davíð Ólafur Ingimarsson, framkvæmdastjóri Guide to Iceland, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að sextíu manns séu í fullri vinnu hjá fyrirtækinu sem þjónusti ferðafólk og íslensk fyrirtæki á margvíslegan hátt.

„Starfsfólk okkar vinnur oft kraftaverk en því miður gerast stundum mannleg mistök. Við hörmum að sjálfsögðu öll mistök sem eiga sér stað, en gerum alltaf okkar besta til að bæta fyrir þau. Í þessu tilfelli hlaut málið farsælan endi þegar ferðafólkið fékk að borða. Við viljum því þakka sérstaklega öllum þeim sem komu að því að leysa þennan vanda.“

Fyrirtækið hagnaðist um 676 milljónir á síðasta ári. Samþykkti stjórnin að greiða 600 milljónir í arð til hluthafa sinna að því er fram kom í Fréttablaðinu í sumar. Stærstu hluthafar í Guide to Ice­land eru Ingólfur Abraham Shahin með 55,3 prósenta hlut í gegnum félagið Djengis, Iurie Belegurschi með 18,5 prósent í gegnum Aurora Capital og Xiaochen Tian með 9,2 prósent í gegnum Chenchen.

„Við erum stolt af því brautryðjendastarfi sem við höfum unnið, sem hefur skilað sér í hundruðum starfa til íslenskra fyrirtækja og einyrkja, ásamt ómældum skatttekjum í ríkissjóð. Við höldum ótrauð áfram við að skapa ferðamönnum ógleymanlegar minningar um Ísland og að stuðla að atvinnuþróun á landinu öllu," segir Davíð Ólafur.


Tengdar fréttir

Fyrirtækið Guide to Iceland greiðir 600 milljóna króna arð

Guide to Iceland sem rekur markaðstorg fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hagnaðist um 676 milljónir króna á síðasta ári. Tekjuvöxtur fyrirtækisins nam 70 prósentum á milli ára. Vinna að því að fara í útrás með hugbúnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×