Handbolti

Vonar að fleiri taki sér Hrafnhildi til fyrirmyndar og fari að þjálfa í Olís-deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir er í öðru sæti með Eyjaliðið.
Hrafnhildur Skúladóttir er í öðru sæti með Eyjaliðið. vísir/vilhelm

Eitt af umræðuefnum Lokaskotsins í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi þar sem fyrsti þriðjungur Olís-deildar kvenna var gerður upp var fámenni kvenna í þjálfunarstéttinni.

Fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Hrafnhildur Skúladóttir er eina konan sem stýrir liði í efstu deild handboltans en hún er að gera góða hluti með Eyjaliðið sem getur farið alla leið í vetur. En, hvar eru hinar konurnar?

„Það eru nokkrar konur aðstoðarþjálfarar eins og Harpa Melsteð hjá Haukum og Rakel Dögg hjá Stjörnunni. Ég á mjög erfitt með að svara þessu. Ætli strákarnir fái forgang og þyki kannski vera með meiri gæði. Ég veit ekki hvað málið er,“ segir Þorgerður Anna Atladóttir, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður.

Ásgeir Jónsson, aðstoðarþjálfari Aftureldingar í Olís-deild karla, var aðstoðarmaður Hrafnhildar í Eyjum í fyrra en saman komu þau liðinu í undanúrslit deildar og bikars.

„Ég held að konur megi gera sig breiðari í þessu almennt. Ég er ekki að setja ábyrgðina yfir á þær en í stjórnarstöðum, ábyrgðarstöðum og þjálfun eiga þær að sækja fram og vera óhræddar við það,“ segir Ásgeir.

„Ég er gríðarlega stoltur af Hröbbu. Það er heiður að hafa unnið með henni. Hún var leiðtogi á vellinum og er það líka sem þjálfari. Það má taka sér hana til fyrirmyndar.“

„Hrabba fór úr öskunni í eldinn, beint úr því að vera leikmaður í að þjálfa og ég vona að fleiri landsliðskonur af hennar kynslóð hafi sjálfstraust pg kjark til þess að gera það líka og láta til sín taka,“ segir Ásgeir Jónsson.

Alla umræðuna má sjá hér að neðan en einnig var rætt um nýliða deildarinnar og hver er besti markvörðurinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.