Lífið

Æfði handstöður í heilt ár fyrir slysið: „Líklega ein ástæða þess að ég er á lífi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Henning verður í Íslandi í dag í kvöld.
Henning verður í Íslandi í dag í kvöld.

Draumasumarfrí Crossfit þjálfarans Hennings Jónassonar snerist upp í andhverfu sína þegar hann var við dýfingar í fallegu gljúfri í Suður-Frakklandi ásamt kærustunni sinni í ágúst. Eftir að hafa margsinnis stokkið í bólakaf af klettunum á svæðinu ákvað hann að prófa nýjan stað, og stinga sér með höfuðið fyrst.

„Ég var búinn að vera að hoppa af einhverjum sex, sjö metra hæðum. Þetta voru bara tveir metrar svo ég ákvað að stinga mér bara „head first“, var búinn að lenda á fótunum bara hingað til í „backflip“ og ekkert mál. Ég var varla kominn ofan í og þá bara mætir mér harður botninn,“ segir Henning.

Þríbrotnaði þegar harður botninn tók við

Hann þríbrotnaði á efsta hálslið og þurfti að dvelja dögum saman á frönsku sjúkrahúsi. Læknarnir sögðu hann heppinn að vera á lífi, enda höggið gríðarlega þungt í grunnu vatninu. Undanfarnar vikur hefur Henning notast við stífan hálskraga, má hvorki þjálfa tíma úti á Granda né stunda aðalstarf sitt við flugumferðarstjórn. Hann telur hins vegar niður dagana, enda afar óvanur að vera lengi kyrr.

Sjá einnig: Íslenskur Crossfit-kappi heppinn að vera á lífi eftir alvarlegt slys í Frakklandi

Henning kveðst gríðarlega þakklátur fólkinu í kringum sig, en sérstakar Hennings-æfingar voru haldnar víða um land meðan hann lá inni á sjúkrahúsi í Frakklandi auk þess sem vinir hans í Kiriyama Family sungu lag í hans nafni við upphitun fyrir stórsveitina Arcade Fire í ágúst.

Sjá einnig: Mjölnir sýndi Henning stuðning með æfingu honum til heiðurs

Þá bárust honum einnig ýmis bréf og kveðjur, m.a. frá sjálfum forsetanum Guðna Th. Jóhannessyni, sem hefur lofað að taka æfingu með Henning þegar honum batnar.

Rætt verður við Henning í Íslandi í dag klukkan 18:55, strax eftir kvöldfréttir. Þar fer hann m.a. yfir slysið, sjúkrahúsdvölina í Frakklandi, muninn á heilbrigðiskerfinu hér og ytra og hvernig handstöðuæfingar og alhliða gott form urðu honum til happs daginn örlagaríka.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.