Handbolti

Haukur tók yfir stórleikinn: Skoraði sex af síðustu níu mörkum Selfyssinga

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur var magnaður í gær.
Haukur var magnaður í gær. vísir/ernir
Selfoss vann öflugan sigur í Vestmannaeyjum í gær er Selfyssingar unnu tveggja marka sigur, 27-25, á fjórföldum meisturum ÍBV.

Eyjamenn voru sterkari framan af og leiddu meðal annars með þremur mörkum í hálfleik, 15-12, en frábær síðari hálfleikur gestana skilaði þeim tveimur stigum.

Í síðasta þætti af Seinni bylgjunni kallaði einn spekingur þáttarins, Jóhann Gunnar Einarsson, eftir meiru frá Hauki Þrastarsyni og setti hann á topp fimm lista sem Jóhann vildi sjá meira frá.

Haukur svaraði kallinu og rúmlega það. Selfyssingurinn tók yfir leikinn í síðari hálfleik. Hann skoraði sjö mörk úr átta skotum, þar af sex af síðustu níu mörkum Selfyssinga.

Auk þess að skora sex mörk sjálfur gaf hann fjórar stoðsendingar og ekki var hann slakur í varnarleiknum þar sem hann átti tvær löglegar stöðvanir.

Gott að eiga hauk í horni í risa slag eins og í Eyjum í gær en á laugardaginn mætir Selfoss Ribnica frá Slóveníu í síðari leik liðanna í 2. umferð EHF-keppninnar. Selfoss tapaði fyrri leiknum í Slóveníu, 30-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×