Handbolti

Ásgeir: Þiggjum aðstoð Benfica með þökkum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, segir að það hafi verið komin þreyta í hópinn af endalausum söfnunum og því hafi liðið ákveðið að selja heimaleik sinn gegn Benfica í EHF-bikarnum.

FH leikur gegn Benfica í tveimur leikjum, þrettánda og fjórtánda október, en Ásgeir segir að hver umferð sem liðið fer áfram í Evrópukeppni sé afar dýr.

„Málið er það að í handboltanum er hver umferð dýr. Hún kostar um það bil þrjár milljónir sem við þurfum að fjármagna,” sagði Ásgeir í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Auðvitað höfum við gert það undanfarin fjögur skipti að spila á heimavelli. Við njótum stuðnings Hafnarfjarðarbær sem styrkir okkur myndarlega og svo eru samstarfsaðilar sem hafa styrkt okkur.”

„Eins og marg oft hefur komið fram hafa leikmenn þurft að kljúfa mismuninn og það er erfitt þegar við erum að fara umferðir. Fyrst að þetta bauðst frá Benfica að spila báða leikina úti er þetta niðurstaðan.”

„Leikmenn lögðu gífurlega mikið á sig að koma okkur í gegnum hverja umferð. Leikmenn og þjálfarar eiga hrós skilið fyrir það. Menn voru orðnir þreyttir eins og gengur og gerist.”

„Það þurfti að fara af stað enn á ný að safna og styrkur Hafnarfjarðarbæjar og samstarfsaðila dugði ekki til fyrir þessari umferð. Við fáum aðstoð frá Benfica og þiggjum það með þökkum,” sagði Ásgeir.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum efst í fréttinni.


Tengdar fréttir

Báðir Evrópuleikir FH í Portúgal

FH mun leika báða leiki sína við Benfica í EHF bikarnum í Portúgal. Leikirnir fara fram helgina 13.- 14. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×