Handbolti

Axel: Sýndum að við getum staðið í bestu liðunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Schenkerhöllinni skrifar
Axel Stefánsson.
Axel Stefánsson. vísir/stefán
Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, var nokkuð ánægður með frammistöðu íslenska liðsins þrátt fyrir eins marks tap gegn Svíum í vináttulandsleik í kvöld.

„Þetta er einn af þessum leikjum þar sem maður getur verið sáttur með frammistöðuna en ótrúlega sárt að vinna ekki. Við áttum alla möguleika á því og erum sjálfum okkur verst,“ sagði Axel í leikslok í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Svíar unnu 25-26 sigur eftir að Ísland var 15-13 yfir í hálfleik.

„Stelpurnar voru að spila virkilega vel, rosalega flottar og flottur handbolti sem þær voru að spila. Ótrúlega stoltur af þessu liði.“

Svíar urðu í fjórða sæti á síðasta heimsmeistaramóti og því með gríðarsterkt lið. Íslenska liðið náði í eitt stig úr sex leikjum í síðustu undankeppni EM og því mjög sterkt að ná í þessi úrslit gegn svo sterkum andstæðingi.

„Maður er ótrúlega svekktur að hafa ekki unnið og eins og við spilum þá eigum við að vinna þetta. En við þurfum bara að læra, klára einn og einn færin okkar á móti markmanni. Það er þess vegna sem við erum að fá þessa leiki.“

„Við ætlum bara að verða betri og betri, þetta er skref í rétta átt og það er rosalega gott að sjá.“

Vináttulandsleikir eru oft notaðir til þess að prófa sig áfram, fékk Axel svör við þeim spurningum sem hann hafði í þessum leik?

„Já, já. Við lögðum upp með að byrja betur en við höfum gert í síðustu leikjum og það náðum við að gera. Við vorum inni í leiknum allan tímann og það sýnir það að við getum staðið í þessum bestu þjóðum. Þar fékk ég mjög gott svar frá stelpunum.“

„Varnarlega erum við að verða nokkuð stabíl og sóknarlega finnst mér meiri hlutinn ganga vel,“ sagði Axel Stefánsson.

Liðin mætast öðru sinni á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×