Lífið

Hefur fundið krákustíg í veðurfari: „Það hlýnar í 35 ár og kólnar í 35 ár“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Páll Bergþórsson er reynslumesti veðurfræðingur landsins.
Páll Bergþórsson er reynslumesti veðurfræðingur landsins.

Þó Páli Bergþórssyni hafi verið gert að hætta störfum á Veðurstofunni fyrir 25 árum sökum aldurs er hann hvergi banginn, birtir daglega veðurspá á Facebook og skellir sér í fallhlífarstökk. Auk þess vinnur Páll að umfangsmikilli vísindagrein og leggur mikla áherslu á daglega hreyfingu og agað mataræði. Hann segir mikilvægt að finna sér einhvern tilgang og lúra ekki bara heima, þrátt fyrir að vera kominn á miðjan tíræðisaldur.

Þess utan situr hann þó ekki auðum höndum og birtir t.a.m. daglega veðurspá á Facebook síðu sinni tíu daga fram í tímann. Fjölmargir fylgjast með spánni á hverjum morgni, enda á Páll tæplega fimm þúsund vini á miðlinum. Fjallað var um Pál í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Bergþór sonur minn fór í svona fallhlífarstökk og Albert hans og ég fylgist alveg með því. Um leið og þeir voru lentir, þá bara datt mér í hug að ég ætti að fara líka. Mér fannst þetta vel við eiga því ég hef verið að eiga við gufuhvolfið geysilega lengi. Það eru, núna í haust, sjötíu ár síðan ég var ráðinn á veðurstofuna. Ég hef alltaf verið tengdur þessu gufuhvolfi en aldrei farið í gegnum það án þess að vera í flugvél.“

Gott að hafa verkefni

Páll segist ekkert hafa verið smeykur í frjálsu falli.

„Eftir að ég var orðinn ekkjumaður, þá var ekki þörf fyrir mig lengur. Ég fylgdist með konunni minni meðan hún var á dvalarheimili, en svo fannst mér ég vera orðinn eitthvað svona umkomulaus og atvinnulaus svo ég tók upp á því að fara að útbúa spár á Fésbókinni og senda þær á hverjum morgni og hef gert það í fimm ár síðan,“ segir Páll og bætir við: „Ég hef gaman að þessu og finnst það sérstaklega gaman að hafa einhvern tilgang, hafa einhver verkefni og fara á fætur nákvæmlega klukkan sjö og tek smá morgunleikfimi og fer í göngutúr. Þá er maður búinn að fá svona einhverskonar dagsverk rétt eins og þegar maður var á skikkanlegum aldri.“

Auk þess hefur hann undanfarið unnið að umfangsmikilli vísindagrein um þróun veðurfars á jörðinni til næstu aldamóta, sem er vel á veg komin.

„Þar þykist ég hafa fundið eitthvað sem enginn kannast við. Það er einskonar krákustígur sem hitinn fylgir upp og niður. Það hlýnar í 35 ár og kólnar í 35 ár.“

Hér að neðan má sjá spjallið við Pál.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.