Handbolti

Selfoss með dramatískan sigur gegn FH og Haukar höfðu betur gegn Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Læðan skoraði níu mörk gegn gömlu félögunum.
Læðan skoraði níu mörk gegn gömlu félögunum. vísir/bára
Haukar og Selfoss byrja Hafnarfjarðarmótið en leikið er á Ásvöllum í minningu séra Friðriks Friðikssonar sem hefði orðið 150 ára.

Í fyrri leik dagsins mættust Haukar og Valur en bæði lið hafa styrkt sig í sumar, Valur þó meira og fengu þeir meðal annars Agnar Smára Jónsson og Róbert Aron Hostert frá Íslands- og bikarmeisturum ÍBV.

Eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 16-15, unnu Haukarnir fjögurra marka sigur, 35-31. Atl Már Báruson átti góðan leik og skoraði níu mörk en Heimir Óli Heimisson skoraði sjö.

Ásgeir Örn Hallgrímsson er kominn heim úr atvinnumennsku og átti flottan leik fyrir Hauka en hann skoraði fjögur mörk í kvöld.

Í liði Vals var það Agnar Smári sem var markahæstur. Hann skoraði sjö mörk en næstur kom Magnús Óli Magnússon með sex og þeir Úlfur Þórðarson og Róbert Hostert með fimm hvor.

Í síðari leik kvöldsins kastaði FH frá sér þægilegri forystu gegn Selfyssingum og lokatölur 29-28 sigur Selfoss, en þessi lið mættust í eftirminnalegu undanúrslitaeinvígi í Olís-deildinni á síðustu lektíð.

FH náði upp góðu forskoti í fyrri hálfleik en þeir breyttu stöðunni úr 10-10 í 16-10 og leiddu 17-11 í hálfleik. Í síðari hluta síðari hálfleiks galopnaðist vörn FH trekk í trekk og Selfyssingar skoruðu að vild.

Síðustu mínúturnar voru spennandi. Einar Rafn Eiðsson jafnaði metin í 28-28 en Guðni Ingvarsson skoraði sigurmarkið af línunni í þann mund sem flautan gall og eins marks sigur Selfyssinga, 29-28, í frábærri endurkomu.

Ásbjörn Friðriksson skoraði níu mörk fyrir FH og næstur kom Einar Rafn Eiðsson með átta. Í liði Selfyssinga var hetjan, Guðni Ingvarsson, markahæstur með átta og þeir Sverrir Pálsson og Hergeir Grímsson gerðu fimm hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×