Handbolti

Grófu sér of djúpa holu í tapi gegn Króatíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sveinn Jóhannsson sem gekk í raðir ÍR úr Fjölni var frábær á línunni.
Sveinn Jóhannsson sem gekk í raðir ÍR úr Fjölni var frábær á línunni. vísir/ernir
Íslenska landsliðið í handbolta skipað strákum 20 ára og yngri tapaði fyrir Króatíu, 31-27, í umspilsleik um 5.-8. sæti Evrópumótsins í Slóveníu í morgun.

Leikurinn var jafn og spennandi í 45 mínútur en þá tóku Króatar af skarið og náðu mest fimm marka forskoti, 29-24.

Íslensku strákarnir reyndu við endurkomuna, skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 29-27 en holan sem þeir voru búnir að grafa sér var of djúp.

Króatar stóðust áhlaupið og kláruðu leikinn með fjögurra marka sigri eftir hetjulega tilraun íslensku strákanna til að knýja að minnsta kosti fram framlengingu.

Sveinn Jóhannsson, línumaður ÍR, var markahæstur íslenska liðsins með sex mörk en Eyjamennirnir Friðrik Hólm Jónsson og Daníel Örn Griffin skoruðu fjögur mörk líkt og Haukamaðurinn Orri Þorkelsson.

Íslensku strákarnir eru aðeins búnir að vinna einn leik af fimm á mótinu en spila um sjöunda sætið við annað hvort Spán eða Serbíu á morgun. Þau mætast seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×