Viðskipti erlent

Stærstu viðskiptasamtök Bandaríkjanna gagnrýna tollastefnu Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Tom Donohue forseti viðskiptaráðsins er ekki sáttur við verndarstefnu Trump forseta.
Tom Donohue forseti viðskiptaráðsins er ekki sáttur við verndarstefnu Trump forseta. Vísir/Getty
Viðskiptaráð Bandaríkjanna, stærstu samtök þarlendra fyrirtækja, hafa hrundið af stað herferð gegn verndartollum Donalds Trump forseta. Samtökin hafa lengi verið traustir bandamenn Repúblikanaflokksins.

Reuters-fréttastofan segir að viðskiptaráðið ætli að færa rök fyrir því að tollar sem Trump hefur lagt á innfluttar vörur frá Evrópusambandinu, Kanada, Mexíkó og Kína geti leitt til viðskiptastríðs sem komi niður á pyngju bandarískra neytenda. Önnur ríki hafa þegar byrjað að svara tollum Trump í sömu mynt.

„Ríkisstjórnin hótar því að grafa undan efnahagslegum ávinningi sem hún hefur unnið svo hörðum höndum að því að ná. Við ættum að sækjast eftir frjálsum og sanngjörnum viðskiptum en þetta er ekki leiðin til þess,“ segir Tom Donohue, forseti Viðskiptaráðs Bandaríkjanna við Reuters.

Á meðal dæma um hvernig tollarnir koma niður á bandarískum ríkjum þar sem kjósendur studdu Trump nefnir viðskiptaráðið að vörur að andvirði 3,9 milljarða dollara frá Texas gætu orðið fyrir barðinu á tollum annarra ríkja. Svipaða sögu sé að segja frá ríkjum eins og Tennessee og Suður-Karólínu.


Tengdar fréttir

Tollahækkun ESB tekur gildi

Tollar Evrópusambandsins á fjölda bandarískra vara voru formlega innleiddir í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×