Viðskipti erlent

Bílaframleiðendur segja hundruð þúsunda starfa munu tapast með tollum

Kjartan Kjartansson skrifar
Tollar á innflutta bíla munu að líkindum hækka bílverð í Bandaríkjunum. Þá eru tollar Trump á stál og ál líklegir til að auka kostnaðinn við innlenda framleiðslu.
Tollar á innflutta bíla munu að líkindum hækka bílverð í Bandaríkjunum. Þá eru tollar Trump á stál og ál líklegir til að auka kostnaðinn við innlenda framleiðslu. Vísir/EPA
Tvenn samtök bílaframleiðenda í Bandaríkjunum vara við því að hundruð þúsunda starfa í bílaiðnaðinum muni glatast ef Donald Trump forseti stendur við hótanir sínar um að leggja 25% verndartoll á innflutta bíla. Tollarnir muni einnig snarhækka verð á bílum og koma niður á þróun sjálfkeyrandi bíla.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna vinnur nú að skýrslu um hvort að innflutningur á bílum skaði þjóðaröryggi landsins. Það eru rökin sem Trump notaði til þess að leggja verndartolla á innflutt stál og ál nýlega. Forsetinn hefur hótað því að leggja háa tolla á innflutta bíla í framhaldinu.

Stórir bílaframleiðendur eins og Toyota, Volkswagen, BMW og Hyundai tilheyra samtökunum sem vara við tollunum nú, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Tollarnir muni skaða bílaframleiðendur og bandaríska neytendur. Þeir séu stærsta ógnin sem steðjar að bandarískum bílaiðnaði um þessar mundir.

Framleiðendurnir telja að kostnaður við bíla og þar með verð myndi stórhækka. Þannig hefðu þeir úr minna fé til að fjárfesta í þróun sjálfkeyrandi bíla.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa þegar fullyrt að þeir séu tilbúnir að svara mögulegum bílatollum í sömu mynt, líkt og sambandið hefur þegar gert vegna verndartolla Trump á stál og ál.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×