Handbolti

Elín Jóna frá Haukum til Danmerkur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir er á leið í atvinnumennskuna.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir er á leið í atvinnumennskuna. vísir
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, er farin frá Haukum til danska liðsins Vendyssel en frá þessu er greint á heimasíðu danska félagsins. Hún skrifaði undir tveggja ára samning.

Elín Jóna hefur verið einn allra besti markvörður Olís-deildarinnar undanfarin ár og átti stóran þátt í því að Haukar voru tapi í oddaleik gegn Val frá því að komast í úrslitarimmu Íslandsmótsins á móti Fram.

„Draumurinn minn frá því ég var lítil stelpa er að rætast. Takk Haukar fyrir allt! Takk Grótta fyrir allt ... Gæti ekki verið þakklátari fyrir að fá þetta tækifæri og fyrir alla sem hjálpuðu mér að komast þangað,“ segir Elín Jóna á Instagram-síðu sinni þar sem að hún birtir mynd af sér að skrifa undir samninginn.

Vendyssel hélt sæti sínu í dönsku 1. deildinni á dögunum með sigri í umspili og verður því áfram í næst efstu deild.

Elín Jóna er aðeins 21 árs gömul en hefur verið á meðal þeirra bestu hér heima um árabil. Þetta er flott skref fyrir landsliðsmarkvörðinn en að sama skapi mikil blóðtaka fyrir Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×