Skoðun

Íþróttir og pólítík

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Á tyllidögum er oft sagt að íþróttir og stjórnmál eigi ekki samleið. Er átt við að þessu tvennu skuli halda aðskildu. Íþróttamanna sé að stunda íþróttir og stjórnmálamanna að iðka pólitík.

Samt er það svo að íþróttakeppnir eru vettvangur sem tekið er eftir. Ríflega einn milljarður manna horfði á úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2014. Talið er að ríflega þrír milljarðar hafi horft á keppnina á einhverjum tíma. Áhorfstölur á Ólympíuleikana eru sambærilegar. Óhjákvæmilega vilja valdhafar nýta sér viðburði sem augu heimsbyggðarinnar eru á. Hið sama gildir um aðra sem vilja koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Því er í raun ómögulegt að aðskilja alveg stjórnmál og íþróttir.

Staðreyndin er sú að íþróttaviðburðir hafa alla tíð verið nýttir í pólitískum tilgangi. Frægasta dæmið er sennilega Ólympíuleikarnir í Berlín 1936, sem urðu eins konar sýningargluggi fyrir Þýskaland Hitlers og nasismans. Þá fóru leikarnir fram þrátt fyrir spennu á alþjóðavettvangi, og íþróttamennirnir tóku þátt þrátt fyrir að margir þeirra væru beinlínis óvelkomnir til Þýskalands Hitlers. Þar kepptu til dæmis íþróttamenn af gyðingaættum og unnu til verðlauna.

Í seinni tíð virðast stjórnvöld í einræðisríkjum, eða ríkjum þar sem stjórnarfari er af öðrum ástæðum ábótavant, í auknum mæli getað „keypt“ íþróttaviðburði. Þetta hefur verið áberandi í knattspyrnunni, en HM 2018 fer eins og kunnugt er fram í Rússlandi og síðan í Katar árið 2022. Einnig á þetta við í öðrum greinum; þrjár fyrstu dagleiðir Ítalíutúrsins í hjólreiðum fara fram í Ísrael í ár. Engum dylst að þar réðu peningar för, og vógu þyngra en áhyggjur af öryggi hjólreiðamannanna eða stjórnmálaástandinu í þessum viðkvæma heimshluta.

Í tilviki Katar og HM 2022 liggur fyrir að engin aðstaða var til slíks mótshalds í landinu. Þar er takmörkuð knattspyrnuhefð og hitastigið á meðan mótið fer fram er beinlínis hættulegt heilsu leikmanna. Stjórnvöld í Katar hafa lagt í stórkostlega uppbyggingu á leikvöngum og aðstöðu og notað til þess vinnuafl sem varla er hægt að kalla annað en þræla. Auðvitað er til skammar að alþjóðaknattspyrnuhreyfingin taki þátt í slíku. Málefnaleg rök fyrir því að halda mótið í þessum heimshluta á þessum tíma árs eru ekki til. Peningarnir réðu.

Ekki er heldur hægt að aðskilja HM sem fram fer í Rússlandi í sumar alveg frá pólitíkinni. Það eru viðsjárverðir tímar í samskiptum Vesturlanda og Rússlands. Rússar halda uppi linnulausum áróðri gegn Vesturlöndum innanlands. Nú síðast beittu Vesturlönd Rússa þvingunum vegna efnaárásarinnar í Salisbury á Englandi. Íslendingar tóku þar þátt og utanríkisráðherra hefur gefið út að ríkisstjórnin hyggist enga opinbera fulltrúa senda á mótið.

Auðvitað kunna slík skilaboð að þykja léttvæg. Þetta er engu að síður fórn fyrir þjóð sem upplifa mun sínar stærstu stundir í íþróttasögunni á HM í sumar. Því má segja að utanríkisráðherra hafi tekist að feta einstigið ágætlega og komið hneykslan á framferði Rússa áleiðis. Ólíklegt er að útspil ráðherra hafi mikil áhrif á leikmenn íslenska liðsins. Þeir munu halda sínu striki. Áhorfendur heima í stofu og á völlunum í Rússlandi munu sömuleiðis ekki missa svefn yfir framferði Rússa á alþjóðavettvangi.

Að því leyti er gamla klisjan rétt. Mótið fer fram og leikirnir verða spilaðar, hvað sem tautar og raular. Eða eins og Bill Shankly, fyrrverandi stjóri Liverpool sagði: „Knattspyrnan snýst ekki um líf og dauða. Hún er miklu mikilvægari en svo.“




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×