Umfjöllun og viðtöl: KR - Tindastóll 70-98 | Stólarnir svöruðu með stæl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik í kvöld.
Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik í kvöld. Vísir/Bára

Tindastóll náði í kvöld að jafna metin í rimmu liðsins gegn KR í lokaúrslitum Domino's-deildar karla með ótrúlegri frammistöðu í DHL-höllinni í kvöld, 98-70. Stólarnir hrifsuðu því aftur til sín heimavallarréttinn sem þeir töpuðu með tapi á heimavelli á föstudagskvöldið.

Antonio Hester, miðherjinn sterki í liði Tindastóls, var ekki með sínu liði að þessu sinni vegna meiðsla en hann reiknar með því að spila með í næsta leik. Hann er að glíma við ökklameiðsli og var ólíkur sjálfum sér á föstudagskvöldið. Var því ákveðið að hann myndi hvíla í kvöld.

Í fjarveru hans var ljóst að KR var í dauðafæri að taka risastórt skref að fimmta Íslandsmeistaratitlinum, enda að spila við sært lið Tindastóls á heimavelli fyrir framan stútfullt hús af áhorfendum. Byrjun leiksins gaf til kynna að þetta yrðu lyktir leiksins, enda náði KR frumkvæðinu snemma og gestirnir áttu erfitt með að finna skotið sitt.

Á þessum kafla, þegar allt virtist vera KR-ingum í vil, var aðeins einn leikmaður Tindastóls með meðvitund. Það var Pétur Rúnar Birgisson sem tók liðið á sínar herðar í fyrri hálfleik, skoraði 21 stig og sá til þess nánast einn síns liðs að Tindastóll var í forystu að loknum fyrri hálfleik.

Stólarnir sáu að þetta var hægt. En það þurfti meira til en bara einn leikmann og Tindastóll fékk það framlag frá Helga Rafn Viggóssyni og Axel Kárasyni, tveimur uppöldum leikmönnum sem eru með vínrautt blóð í æðum. Óbilandi dugnaður þeirra, baráttuvilji og kraftur smitaði til allra annarra leikmanna í liðinu. Stólarnir höfðu yfirhöndina í baráttunni, sérstaklega í fráköstum, og nýttu sér þennan meðbyr til að seta niður risastór skot, hvað eftir annað.

KR-ingar áttu engin svör, þrátt fyrir að vera með stjörnum prýtt lið. Enginn KR-ingur náði að mæta þessari baráttu hjá Tindastóli og var þá ekki að spyrja að leikslokum.

Af hverju vann Tindastóll?
Þetta var skrýtinn leikur. Fyrsti leikhluti tók 30 mínútur og fyrri hálfleikur klukkutíma. Það var ótrúlegur fjöldi villa strax í fyrsta leikhluta (20) sem og vítaskota (29). En þrátt fyrir að hafa lent í villuvandræðum snemma sýndi Tindastóll gríðarlega baráttu, sérstaklega í seinni hálfleik, sem sá til þess að liðið vann leikinn og hélt þessari rimmu á lífi. Margt kom til en án baráttunnar hefði Tindastóll aldrei átt möguleika í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?
Pétur Rúnar Birgisson var stórkostlegur í kvöld og hélt sínu liði á floti þegar mest þurfti á að halda. Axel og Helgi Rafn gerðu sitt sem fyrr segir og barátta þeirra var til fyrirmyndar. Margir aðrir áttu góðan leik fyrir Tindastól, svo sem Viðar, Björgvin, Helgi Freyr og Chris Davenport, enda þurfti það nauðsynlega til í fjarveru Antonio Hester.'

Hvað gekk illa?
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að besti sóknarmaður Tindastóls, Sigtryggjur Arnar Björnsson, fann sig engan veginn í kvöld og skoraði aðeins þrjú stig. Hann var 1 af 11 í skotum og klikkaði á öllum sex þriggja stiga skotunum sínum. En það kom ekki að sök. Hvað KR varðar þá tapaði liðið boltanum 20 sinnum og tapaði frákastabaráttunni 50-34. Þá skorti liðið alvöru framlag frá öllum sínum lykilmönnum í kvöld.

Hvað gerist næst?
Næsti leikur fer fram á Sauðárkróki á miðvikudag. Þá heldur þessi veisla áfram og Tindastóll fær væntanlega Antonio Hester aftur inn á parketið. Hversu heill hann verður á eftir að koma í ljós.

KR-Tindastóll 70-98 (28-26, 16-24, 16-31, 10-17)

KR: Kristófer Acox 12/6 fráköst, Kendall Pollard 12, Darri Hilmarsson 9/6 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 9, Marcus Walker 9, Björn Kristjánsson 8, Pavel Ermolinskij 6/9 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 3, Arnór Hermannsson 2.

Tindastóll: Pétur Rúnar Birgisson 26/4 fráköst/9 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 18/10 fráköst, Axel Kárason 14/4 fráköst, Chris Davenport 12/7 fráköst, Viðar Ágústsson 12/7 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 6, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5, Sigtryggur Arnar Björnsson 3/6 fráköst/7 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 2/4 fráköst.

Brynjar um Helga Rafn: Ég elska hann

Brynjar Þór Björnsson. Vísír/Bára

Brynjar Þór Björnsson segir að KR-ingar hafi ekki efni á því að láta Stólana fara með sig eins og þeir gerðu í kvöld.

„Það voru sóknarfráköst og tapaðir boltar sem fóru með okkur. Það er í raun ekkert flóknara,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, bakvörður KR, eftir leikinn í kvöld.

„Auðvitað var líka taugastríð á milli liðanna, því neita ég ekki. KR hefur áður sýnt að það getur spilað vel þegar lykilmenn vantar og það er einmitt það sem Tindastóll gerði í kvöld,“ sagði hann en Antonio Hester gat ekki spilað með Tindastóli í kvöld vegna meiðsla. „Allir náðu að bæta sig hjá Tindastóli og við vorum ekki tilbúnir í það.“

Báðum fyrstu leikjunum í rimmunni hefur nú lokið með stórsigri útiliðsins. En nú reiknar Brynjar Þór með jafnari leikjum framvegis.

„Mín reynsla er að þetta muni jafnast meira út og ég reikna með því að næsti leikur verði jafn og spennandi. Við verðum að gæta samt þess að Stólarnir fari ekki svona með okkur eins og þeir gerðu í kvöld. Þeir tóku okkur á beinið og sýndu það hvað viljinn getur verið ofsalega sterkt verkfæri.“

Helgi Rafn Viggósson fór fyrir baráttuglöðum Sauðkrækingum í kvöld og Brynjar vildi gjarnan hafa hann í sínu liði. „Ég elska hann. Þetta er stríðsmaður sem allir vilja hafa með sér. Hann og Axel [Kárason] eru miklir baráttuhundar. Þeir sýndu það í kvöld og settu líka niður stór skot. Þeir unnu okkur, sem og Pétur Rúnar auðvitað.“

Hester: Brotnaði niður þegar ég sagði þeim að ég myndi ekki spila

Antonio Hester hvetur sína menn áfram. Vísir/Bára

Antonio Hester, Bandaríkjamaðurinn öflugi í liði Tindastóls, gat ekki spilað með liði sínu í kvöld vegna ökklameiðsla. Hann segist þó ætla að mæta tvíefldur til leiks á miðvikudag - hann hafi aðeins hvílt í kvöld vegna meiðslanna.

En þrátt fyrir að hans nyti ekki við í kvöld vann Tindastóll afar sannfærandi 28 stigur á KR-ingum í kvöld, 98-70, og jöfnuðu þar með rimmuna í 1-1. Næsti leikur fer fram á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið.

„Akkurat núna er ég pínu orðlaus. Ég veit ekki hvað ég get sagt um þessa stráka,“ sagði Hester eftir leikinn í kvöld en hann mátti sitja allan tímann á hliðarlínunni.

„Ég ræddi við þá í gær og sagði þeim að ég myndi ekki geta spilað. Þá missti ég stjórn á tilfinningunum mínum og brotnaði niður. En ég lét þá líka vita að ég hef trú á þeim. Ég veit hvað þeir geta,“ sagði hann enn fremur.

„Ég sá hvað þeir gátu í fyrra og þess vegna kom ég aftur. Ég veit að þessir strákar geta unnið leiki eins og þessa. Þeir eru frábærir leikmenn og ég naut þess að koma hingað á sterkan útivöll og vinna þennan leik.“

Hester sagði alveg ljóst að hann myndi spila í þessari rimmu. Hann væri ekki búinn að stimpla sig út.

„Alls ekki. Þetta var bara smá bakslag hjá mér. Ég hef verið að glíma við meiðsli í allan vetur. Ég meiddist í leik gegn Keflavík og hef ekki verið 100 prósent síðan. En ég ætla að halda áfram að berjast, allir vita að ég gefst aldrei upp. En það var ákveðið að ég myndi hvíla í þessum leik svo ég gæti verið klár fyrir þann næsta.“

Hester sagði að leikmenn Tindastóls hefðu lagt allt í sölurnar í kvöld. „Þeir sýndu hversu öflugir við erum í Tindastóli. Við viljum spila öfluga liðsvörn og það gerðum við í kvöld. Ég er svo ánægður fyrir hönd strákanna. Nú fögnum við þessum sigri en svo höldum við áfram. Þetta er bara byrjunin.“

Helgi Rafn Viggósson fór fyrir Tindastóli í kvöld og Hester hló þegar blaðamaður spurði hann um álit hans á frammistöðu Helga í kvöld.

„Hann lætur mann finna fyrir því á hverri einustu æfingu. Hann er alltaf svona. Þetta er minn maður,“ sagði Hester og hló. „Ég nýt þess að spila með honum og ég elska það sem hann hefur fram að færa.“

Finnur Freyr: Við hörfuðum

Finnur Freyr Stefánsson. Vísir/Bára

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR-inga, segir að hans menn hefðu lent undir í baráttunni gegn Tindastóli á öllum vígstöðvum.

„Þeir komu beint á okkur og við hörfuðum í stað þess að taka á móti þeim. Við verðum undir í baráttunni á öllum vígstöðvum,“ sagði Finnur Freyr.

„Við vorum 14-7 yfir í fyrsta leiklhuta en í stað þess að fylgja því eftir þá bökkum við. Við hefðum átt að herða tökin en hleyptum þeim inn í leikinn,“ sagði hann enn fremur.

„Það skiptir ekki máli hvort þú vinnur með einu stigi eða 20. Þú verður að mæta klár til leiks í næsta leik og það gerðum við ekki í kvöld. Við vorum mjúkir í kvöld, þeir voru mjúkir í fyrsta leik og nú skulum við sjá hvernig liðin mæta til leiks á miðvikudag.“

Martin: Baráttan var lykilatriði

Israel Martin. Vísir/Bára

Israel Martin var kampakátur með sigur sinna manna í Tindastóli eftir leik í kvöld. Hann benti reyndar á að Tindastóll virðist oft spila betur á útivelli en heimavelli sem honum þykir einkennilegt.

„Við vitum að vörnin er það mikilvægasta en það eru samt þrír lykilþættir sem þurfa að vera í lagi - fráköst, stoðsendingar og vítanýting. Það var í lagi í kvöld,“ sagði hann.

„En það sem mestu máli skipti í kvöld var baráttan og andinn. Allir voru að berjast um fráköst og lausa bolta. Allir voru tilbúnir að spila í kvöld.“

Antonio Hester spilaði ekki með Tindastóli í kvöld vegna meiðsla en það kom ekki að sök. „Stundum er körfuboltinn svona. Auðvitað myndum við sakna hans ef hann væri frá alla rimmuna en án hans í kvöld náðu okkar menn að spila frábærlega. Stundum er það þannig og sem betur fer gerðist það í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.