Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 26-19 | Valur burstaði Hauka og fer úrslit

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Leikmenn Vals fagna í leikslok.
Leikmenn Vals fagna í leikslok. Vísir/Vilhelm

Valur og Haukar mættust í dag í oddaleik í úrslitakeppni Olís deildar kvenna. Staðan var 2-2 í einvígi liðanna og var ljóst að sigurvegari dagsins færi í úrslita einvígið gegn Fram.

Það var því búist við hörkuleik þar sem spennan yrði í hámarki en annað kom á daginn. Stelpurnar í Haukum virtust hreinlega ekki mæta til leiks í dag og fengu áhorfendur á Hlíðarenda að sjá Val hreinlega valta yfir leikinn frá fyrstu mínútu.

Leikurinn var tiltölulega jafn fyrstu 10 mínútur leiksins en þó var Valur með yfirhöndina. Haukar tóku svo kafla um miðbik fyrri hálfleiks þar sem liðið skoraði ekki eitt einasta mark í góðar tíu mínútur.

Þegar liðið komst loks yfir þann vegg þá beið þeim bara annar veggur til að brjótast í gegnum. Vals liðið varðist stórkostlega vel í þessum leik og Lina Melvik var ekki síðri á milli stangana.

Staðan var 12-6 í hálfleik og í seinni hálfleik var sömu sögu að segja. Haukar börðust en stelpurnar í Val voru bara númeri of stórar. Sigurinn var aldrei í hættu og lokatölur voru 26-19, Val í vil.

Afhverju vann Valur?
Ef það var ekki ljóst með stutta yfirlitunu hér fyrir ofan var Valur einfaldlega bara miklu betri á öllu sviðum leiksins. Sókn, vörn og markvarsla var í topp formi og þær hreinlega léku sér að þessu í dag.

Hverjar stóðu upp úr?
Kristín Guðmundsdóttir, reynsluboltinn í liði Vals, var frábær í dag. Hún skoraði 7 mörk úr 12 skotum og stýrði sóknarleik Vals algjörlega. Í raun gæti ég talið upp alla leikmenn Vals sem skiluðu allar sínu.

Lina Melvik, markvörður liðsins, fær þó stórt prik í dag en hún varði 48% skota Hauka og þar af varði hún þrjú víti í fyrri hálfleik sem fór langleiðina með að drepa leik Hauka í fæðingu.

Hvað gekk illa?
Eitt orð. Haukar.

Allt gekk illa hjá Haukum í dag. Sóknarleikurinn var hugmyndasnauður og varnarleikurinn var aumur. Elín Jóna byrjaði í markinu og var afleit. Hún varði 2 bolta af 16 skotum. Tinna Húnbjörg kom inn í markið og stóð sig ágætlega en það var um seinan. Leikurinn var löngu búinn að renna þeim úr greipum.

Hvað gerist næst?
Haukar eru komnir sumarfrí en framundan er ansi safarík úrslita einvígi á milli Vals og Fram!

Kristín Guðmundsdóttir: Ég fann að þetta yrði minn dagur
„Ég var rosalega gíruð og tilbúin í þennan leik. Ég fann það strax í upphitun sem var rosalega þægileg tilfinning af því þetta hafa verið ótrúlega erfiðir leikir,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, sem átti hreint út sagt frábæran leik í dag í öruggum sigri liðsins á Haukum, 26-19.

Kristín skoraði 7 mörk úr 12 skotum og átti því stóran þátt í að tryggja sínu liði sæti í úrslita einvíginu í Olís deild kvenna sem verður gegn Fram.

„Eftir tapið okkar hér á heimavelli átti ég bara hræðilega daga. Það er erfitt að gíra sig upp í svona slag þegar maður er með hnút í maganum en í dag fann ég bara að þetta yrði minn dagur,“ sagði Kristín en um var að ræða oddaleik í dag þar sem staðan var jöfn, 2-2, í einvíginu.

Hún sagði að síðasti leikur liðanna sem fram fór í Schenker höllinni í Hafnarfirði hefði gefið góða vísbendingu um framvindu mála í dag.

„Síðustu tíu mínútur í síðasta leik fannst mér þær bara búnar. Hvernig við komumst yfir á síðustu tíu mínútunum þá var ótrúlegt því við vorum ekki einu sinni að standa vörnina og allt í einu vorum við komnar yfir. Ég fékk góða tilfinningu eftir þann leik.“

Hún Kristín er ekki vön að vera markahæst í sínu liði en hún segir að Haukar hefðu lagt áherslu á að stöðva aðra leikmenn en hana og það hefði því opnað pláss sem hún nýtti sér.

„Þær voru að mæta vel á Morgan Marie og Díönu í sókninni okkar og þá opnast pláss fyrir mig og þá verð ég að stíga upp.“

Hún kveðst vera spennt fyrir einvíginu gegn Fram en liðin áttust við í hörkuspennandi úrslitaeinvígjum fyrir nokkrum árum og þá þrjú ár í röð.

„Ég held þetta verði fimm leikja sería eins og í gamla daga, 2010, ’11 og 12’. Frábært að spila í Fram heimilinu, finnst það alltaf gaman, og frábært að spila gegn Stebba. Þetta bara gæti ekki verið betra,“ sagði Kristín og vísar þar til Stefán Arnarssonar sem þjálfaði hana hjá Val fyrir nokkrum árum.

Stefán sagði á dögunum að hann vildi helst mæta Val í úrslitaeinvíginu en Katrín gefur lítið fyrir það.

„Ég veit að Stebbi er skíthræddur við okkur,“ sagði Katrín hlæjandi.

Ágúst: Kristín alveg stórkostleg í dag
„Við mættum gífurlega einbeittar og vinnusamar. Varnarleikurinn var frábær og markvarslan var góð. Það voru líka margar sem stigu upp í dag og Kristín var frábær. Alveg stórkostleg,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir öruggan sigur liðsins á Haukum, 26-19, í dag.

Varnarleikur Vals var sérstaklega góður í dag er liðið hreinlega skellti í lás á Hauka og henti lyklinum og tók Ágúst undir það.

„Við erum með massívan varnarleik. Misstum Gerðu út í tvo leiki og hún kom tvíelfd til baka í dag og spilaði frábærlega með Önnu Úrsúlu í hjarta varnarinnar. Það voru allar í dag með framlag. Liðsheildin er sterk í þessum hóp.“

En hvað olli því eiginlega að leikurinn í dag var svona ójafn í einvígi sem hafði til þessa verið gífurlega jafnt?

„Markvarslan datt niður hjá þeim og hún var okkar megin í dag. Það voru fleiri með framlag í okkar herbúðum. Ég veit ekki hvort þær voru þreyttar eða hvað. En ég vil þakka þeim fyrir gott einvígi. Þetta er búið að vera skemmtilegt einvígi.“

Valur mætir Fram í úrslita einvíginu um Íslandsmeistara titilinn og segist Ágúst vera spenntur fyrir rimmunni.

„Fram er með frábært lið en það erum við líka. Þetta verður hörku einvígi.“

Elías Már: Gríðarlega stoltur af mínu liði
Elías Már, þjálfari Hauka, var skiljanlega niðurlútur í leikslok eftir stórt tap gegn Val í dag. Hann segir slæm byrjun liðsins hafa verið aðal orsökin fyrir því hversu illa fór.

„Við klúðrum mikið af dauðafærum í byrjun leiks. Þrjú vítaköst og 6-7 dauðafæri af 6 metra færi fóru í súginn. Við getum ekki unnið Val ef við förum jafn illa með færin.“

Hann tók undir með Ágústi, þjálfara Vals, að markvarslan hafi ekki verið nógu góð í dag.

„Lina var frábær í markinu hjá þeim og við fengum ekki jafn góða markvörslu og við höfum verið að fá,“ sagði Elías sem segist engu að síður vera mjög stoltur af liðinu sínu eftir veturinn.


„Ég er gríðarlega stolltur af mínu liði. Við missum tvo lykilmenn úr liðinu í byrjun á þessari seríu. Það var kannski of mikið fyrir okkur. Ég er ótrúlega stolltur af liðinu. Við höfum barist fyrir alla titla vetrarins með mjög ungt lið,“ sagði Elías og hélt áfram.


„Þegar við lítum til baka á morgun og hinn þá held ég að ég verði bara mjög ánægður með veturinn.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.