Handbolti

Komið að úrslitastundinni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Gerður Arinbjarnar halda á bikarnum.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Gerður Arinbjarnar halda á bikarnum.

Reykjavíkurliðin Fram og Valur hefja einvígi sitt um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna þegar liðin leiða saman hesta sína í Valshöllinni í kvöld. Valur mætir til leiks sem ríkjandi deildarmeistari á meðan Fram hefur titil að verja, auk þess að hafa landað bikarmeistaratitlinum fyrr á þessari leiktíð.

Liðin háðu eftirminnilegar hildir þar sem barist var um Íslandsmeistaratitilinn á árunum 2010-2012. Valur hafði þá betur gegn Fram í úrslitum þrjú ár í röð. Þá var Stefán Arnarsson við stjórnvölinn hjá Val, en hann stýrir nú skútunni hjá Fram. Ágúst Jóhannsson heldur hins vegar um stjórntaumana hjá Val þessa stundina.

Liðin hafa mæst þrívegis í deildinni í vetur, en Fram hefur haft vinninginn í tveimur leikja liðanna og Valur í einum. Lítill munur er þó á liðunum og það er því búist við jöfnum og spennandi viðureignum.

„Markmiðið fyrir veturinn var fyrst og fremst að komast í úrslitakeppnina. Frammistaða okkar er því framar vonum og það er mjög gaman að hafa náð svona langt. Við erum hins vegar klárlega ekki saddar og ætlum okkur titilinn fyrst við erum komnar svona langt. Það er rík hefð fyrir því að vinna titla á Hlíðarenda og margir leikmenn í liðinu sem hafa verið í þessari stöðu áður. Það kemur ekkert annað til greina en að sækja þennan titil,“ segir Gerður Arinbjarnar, fyrirliði Vals, við Fréttablaðið.

„Þetta eru afar áþekk lið sem hafa bæði á að skipa mörgum reynslumiklum leikmönnum í bland við ungar og sprækar stelpur. Það er ákveðin nostalgía í því að mæta Val á nýjan leik í úrslitum. Við riðum ekki feitum hesti frá viðureignum okkar gegn Val hér á árum áður og erum staðráðnar í að bæta upp fyrir það,“ segir Sigurbjörg Jóhannsdóttir, fyrirliði Fram, þegar Fréttablaðið ræðir við hana.

„Við höfum verið að ná vopnum okkar hægt og bítandi í vetur. Það hefur verið stígandi í spilamennsku okkar í allan vetur og ég held að við séum að toppa á hárréttum tímapunkti. Viðureignin við ÍBV var mjög erfið og það skapaðist góð stemming í Safamýrinni í því einvígi sem ég held að muni halda áfram í leikjunum gegn Val. Við erum alla vega klárar í slaginn,“ sagði Sigurbjörg enn fremur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.