Skoðun

Látum ekki hafa okkur að fíflum

Jón Hjaltason skrifar
Mér er stórlega misboðið. Íslenskir stjórnmálamenn hafa leitt íslensku þjóðina út í heimskulegt viðskiptastríð við rússnesku þjóðina og nú á að taka næsta skref. Og hver veit hvar þetta endar?

Og hvers vegna stöndum við í þessum stórræðum? Jú, fyrir orð breskra ráðamanna. Reynt var að myrða Sergei Skripal á breskri grund en forðum lék hann tveimur skjöldum í heimalandi sínu Rússlandi þar sem hann njósnaði fyrir Breta.

Og nú hefur alþjóðasamfélagið dæmt Vladimir Putin og Rússland sek um verknaðinn. Rökin eru eftirfarandi: Notað var eiturgas sem Sovétríkin og síðar Rússland fundu upp, þróuðu og framleiddu á áttunda og níunda áratugi seinustu aldar.

Punktur. Búið.

Með öðrum orðum, alþjóðasamfélagið starfar með sama hætti og dómstóll götunnar.

Og við ætlum að taka þátt í þessum dómstóli, segir áfjáð ríkisstjórn Íslands, sekt Putins og Rússlands er augljós. Umrætt eiturgas, Novi­chok, er þannig vaxið að enginn getur framleitt það nema Rússar. Því eru þeir sekir um morðtilræði við rússneskan eftirlaunaþega sem þeir sumarið 2010 gáfu upp á bátinn í fangaskiptum. Þeir sýndu að vísu þá óvarkárni að nota gastegund úr Novichok framleiðslulínunni en héldu að enginn gæti rakið uppruna þess – sem tók Breta þó ekki eitt augnablik. Þannig skildi Putin ekki aðeins nafnskírteinið sitt eftir á staðnum heldur seðlaveskið allt, að vísu óvart.

Annað sem klikkaði hjá Rússum var að tilræðið tókst ekki eins og til stóð. Þó er Novichok að sögn þeirra sem vit hafa á svo bráðdrepandi taugagas að annað eins hefur aldrei þekkst á jörðu hér. Kveikir þetta engar vangaveltur um hvar eitrið varð til sem átti að bana Skripal?

Til að kóróna þetta himinhrópandi ósamræmi er því haldið fram að Putin hafi óttast slælega kosningaþátttöku heima fyrir og því gripið til þess ráðs að myrða mann í Bretlandi. Lífgum óvininn og sameinum þjóðina sem mun í kjölfarið flykkjast á kjörstað, á hann að hafa hugsað. Og þetta segjum við um manninn sem með lævísum brögðum í netheimum réði úrslitum um kjör Trumps – að sögn.

Nú er mál að linni gönuhlaupi þjóðanna, líka okkar Íslendinga. Minnumst lyginnar sem fékk okkur til að fara í stríð gegn Írökum. Minnumst þess líka að Bretar lugu því að þjóðum heims að Íslendingar væru terroristar. Lærum nú af sögunni. Heimtum beinharðar sannanir fyrir sekt Rússa áður en lengra er haldið. Látum ekki lengur hafa okkur að fíflum.

Höfundur er sagnfræðingur




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×