Skoðun

Að fylgja markaðri stefnu eftir

Ragnar Sverrisson skrifar
Stundum sækir á mig sú hugsun að litlum tilgangi þjóni að kjósa fólk til setu í bæjarstjórn eins og á Akureyri. Vissulega er það allt mesta sómafólk sem að lokum er kosið og vill áreiðanlega gera bænum sínum allt það gagn sem það megnar. Reynsla mín hefur þó kennt mér að enda þótt þetta góða fólk leggi oft fram ágæta vinnu við að móta stefnu í einstökum málaflokkum eigi það undir högg að sækja þegar kemur að því að framkvæma það sem búið er að ákveða og afgreiða formlega.

Gott dæmi er þriggja ára samþykkt aðalskipulags miðbæjar Akureyrar sem treglega gengur að koma til framkvæmda. Ein ástæða þess er að embættismenn í bæjarkerfinu eru ekki sammála einstaka niðurstöðum bæjarstjórnar varðandi þetta skipulag. Hafa þeir þá ýmist lagt steina í götu þess sem þeim hefur verið falið vinna að (sbr. Braunsverslunarmálið) eða tafið og talað opinberlega gegn ákveðnum lausnum í skipulaginu sem bæjarstjórn hefur þegar tekið ákvörðun um hvernig skuli útfærðar (sbr. vistvæna Glerárgötu og hönnun umferðarmiðstöðvar). Við þessar aðstæður hafa bæjarfulltrúar og meirihlutinn gefið sig aðgerðarleysinu á vald og kynoka sér við að fylgja eftir mótaðri stefnu. Því hef ég áhyggjur af raunverulegri valdastöðu bæjarfulltrúa þegar kemur til kastanna.

Þetta sérkennilega ástand endurspeglaðist mjög vel á opinberum fundi nýlega um skipulagsmál miðbæjarins þar sem núverandi skipulagsstjóri bæjarins hældi sér af því að hafa stöðvað undirbúning framkvæmda í samræmi við gildandi skipulag um vistvæna Glerárgötu. Lýsti því jafnframt yfir að hann hafi aldrei á löngum ferli kynnst annarri eins samstöðu í nokkurri bæjarstjórn eins og þeirri akureyrsku. Fyrir mér er þetta giska góð lýsing á því ástandi sem nú ríkir og birtist í samstöðu um algjört aðgerðarleysi bæjarins að framkvæma það sem þegar hefur verið ákveðið að gera varðandi uppbyggingu miðbæjarins. Þegar aldraður fyrrverandi þingmaður tók síðan undir þetta háttalag með nokkrum fögnuði varð mér endanlega ljóst valdaafsal kjörinna bæjarfulltrúa í þessum mikilvæga málaflokki.

Við bætist að í slíku hringlanda­umhverfi sjá frambjóðendur flokka sér hag í því að gera einstakar útfærslur aðalskipulagsins að kosningamáli, sér og sínum flokki til framdráttar og raska með því þeirri heildarsýn sem víðtæk eining náðist um í bæjarstjórn við afgreiðslu aðalskipulagsins árið 2014 eftir tíu ára samfellt starf.

Þetta greinarkorn er hvatning til þeirra, sem gefa kost á sér við næstu bæjarstjórnarkosningar á Akureyri, að kynna sér vel grundvöll núgildandi aðalskipulags miðbæjarins og alla þá vinnu og fjármuni sem í það var lögð á sínum tíma. Þá aukast líkur á að þeir muni sjá til þess að þær góðu ákvarðanir sem þar voru teknar verði látnar verða að veruleika til hagsældar fyrir bæinn og bæjarbúa. Sú deyfð sem heltekið hefur bæjaryfirvöld að framfylgja gildandi skipulagi hefur vakið upp þá hugmynd að nauðsynlegt gæti verið að stofna hollvinafélag miðbæjarins til að þrýsta á bæjaryfirvöld að koma sér að verki í þessum efnum.

Auk þess legg ég til að ákveðið verði að hefja undirbúning að hönnun og byggingu bílastæðahúss sunnan íþróttavallarins, milli Hólabrautar og Brekkugötu.

Höfundur er kaupmaður




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×