Skoðun

Nýtt bankakerfi

Jón Sigurðsson skrifar
Nýskipan fjármálakerfisins stendur fyrir dyrum. Trúlega verða hér aðeins tveir bankar, og jafnvel eitt erlent útibú, ef bönkum verður leyft, eins og hingað til, að veita alhliða fjármálaþjónustu. Fjármálaráðherra verður ráðandi í öðrum bankanum og erlendir fjármálamenn í hinum. Hætt er við að þetta fákeppniskerfi mótist um of af stjórnmálum í annan endann og erlendri stjórn í hinn.

Báðir þessir bankar verða svo kerfismikilvægir að þeir njóta ríkisábyrgðar, jafnvel þótt stjórnmálamenn og bankastjórar afneiti því meðan vel gengur. Almenningur verður látinn taka öll vandræði á sig.

Þessum vanda verður að mæta strax.

Tryggja verður sérgreiningu fjármálafyrirtækja, eða fullnægjandi aðgreiningu ef leyft verður að hafa ólík svið innan sama fjármálafyrirtækis. Ákvarða verður að meirihluti stjórnarmanna búi á Íslandi. Tryggja verður fjarlægð frá flokkshagsmunum. Vanda verður ákvæði um eigið fé, lausafé og þjóðhagsvarúð sem bönkum verður ætlað að lúta. En einnig verður að girða utan um þessa þætti hvern um sig: a) innlán og sparnað einstaklinga og fjölskyldna; b) neytendalán; c) íbúðalán; d) námslán; e) byggðalán; f) greiðslu- og uppgjörskerfi.

Raunhæfar hömlur verður að setja gegn arðsókn af öllum þessum síðastnefndum þáttum og gera kröfur um þjónustu, gæði og starfshætti. Annaðhvort verður að kveða á um fullkomna aðgreiningu fjármálafyrirtækja, þannig að sparisjóður sé sér og fjárfestinga- og fyrirtækjabanki sér og svo framvegis, eða a.m.k. tryggja stjórnunar-, fjárhags- og áhættuaðgreiningu. Tryggingasjóður sparifjár verður að vera sér og tryggingasjóður fjárfesta sér.

Efla ber sjálfstæði Bankasýslu ríkisins og tryggja fjarlægð frá flokkshagsmunum. Sambærilegt á við um kosningu bankaráðs Seðlabankans og val í peningastefnunefnd. Styrkja verður Fjármálaeftirlitið, herða tök þess og fjölga heimiluðum aðgerðum. Ákvarða verður um hlutverk Samkeppniseftirlits og Neytendastofu.

– En auðvitað hrópar það á alla að það vantar sparisjóð, án arðsóknar, sem hafi allt landið að starfssvæði og einbeiti sér að því að þjóna heiðarlegu fólki á heiðarlegan hátt.



Höfundur er fv. skólastjóri




Skoðun

Sjá meira


×