Handbolti

Aðstoðarþjálfari ÍBV stígur til hliðar eftir að hafa ráðist á leikmann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eyjamenn brosmildir á gólfinu í Laugardalshöll. Sigurður Bragason er annar frá hægri og Theodór númer 23 í neðri röð.
Eyjamenn brosmildir á gólfinu í Laugardalshöll. Sigurður Bragason er annar frá hægri og Theodór númer 23 í neðri röð. Vísir/Valli
Sigurður Bragason, aðstoðarþjálfari nýkrýndra bikarmeistara ÍBV í handbolta, stígur til hliðar frá öllum störfum innan félagsins eftir líkamsárásina í bikarfögnuði Eyjamanna á sunnudaginn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍBV, en Sigurður réðst á Theodór Sigurbjörnsson, einn besta leikmann liðsins, þegar liðið var að fagna bikarsigrinum með þeim afleiðingum að stórsá á Theodór sem fékk skurð fyrir ofan vinstra augað.

Sigurður gisti fangageymslur vegna atviksins eins og Vísir greindi frá í gær.

Í fréttatilkynningu Eyjamanna segir að sátt hafi verið um að Sigurður víki frá störfum, en ákvörðunin er tekin í ljósi undangenginna atburða. Tekið er fram að Sigurður og Theodór hafi náð sáttum „enda félagar til margra ára“ eins og það er orðað.

„Við hörmum atburðinn og vonum að stuðningsmenn og velunnarar ÍBV snúi bökum saman félaginu til heilla,“ segir í tilkynningu ÍBV.

Sigurður hefur verið einn af aðalmönnunum í handboltanum hjá ÍBV um margra ára skeið, en hann var leikmaður liðsins í mörg ár og markahæsti leikmaður þess áður en Theodór fór upp fyrir hann fyrr á þessari leiktíð. Þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari Arnars Péturssonar undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×