Skoðun

Höfum áhrif í breyttum heimi

Auður Albertsdóttir skrifar
Tækniframfarir síðustu ára hafa breytt lífi okkar gríðarlega og í langflestum tilfellum til hins betra. Framundan eru enn meiri breytingar með hlutum eins og gervigreind, sjálfkeyrandi bílum, 3D prenturum og hægt er að halda endalaust áfram. Þessar breytingar eru skilgreindar sem fjórða iðnbyltingin og ítrekað kemur upp umræða um hana og hvaða þekking og menntun verður nauðsynleg til þess að skara fram úr þegar kemur að störfum framtíðarinnar.

Með fjórðu iðnbyltingunni er fjölmörgum starfsgreinum raskað og þeir sem standa án viðeigandi kunnáttu fyrir vinnustaði framtíðarinnar gætu verið í vanda staddir. Svo virðist vera að líklegra sé að þetta muni hafa neikvæð áhrif á konur samkvæmt rannsókn World Economic Forum. Ein ástæða er að hlutfall kvenna er enn of lágt í þeim störfum sem búist er við að vaxi mest á næstu fimm árum, þ.e. í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði.

Samskiptamiðillinn Linkedin birti á síðasta ári lista yfir efnilegustu störf ársins og efstu 20 störfin krefjast þekkingar í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Þrátt fyrir þessi tækifæri virðist vera viðvarandi kynjabil í þessum geirum. UNESCO hefur birt tölur þar sem segir að aðeins um þrír af hverjum tíu rannsakendum í vísindum, tækni og nýsköpun séu konur. Jafnframt metur Linkedin það svo að konur séu aðeins tveir af hverjum tíu í tæknistörfum.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna en hann var fyrst haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum árið 1909. Það er óhætt að segja að barátta kvenna fyrir jafnrétti hafi skilað gríðarlegum árangri á þessum 109 árum en eins og við vitum er baráttunni langt frá því að vera lokið. Lágt hlutfall kvenna í tæknigeiranum er aðeins eitt dæmi af mörgum um það og er framundan risastórt tækifæri fyrir konur að spila höfuðhlutverk í því að knýja áfram nýsköpun og framfarir.

Styrkja þarf konur í tæknigeiranum, veita þeim athygli og skapa fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir. Þarna gætu stjórnvöld komið sterk inn en einnig fjölmiðlar og leiðtogar í atvinnulífinu, enda er yfirleitt litið á fjölbreytni innan fyrirtækja sem mikilvægan samkeppnisstyrk.  Jafnframt þarf að laga menntakerfið að breyttum tímum og nú er tækifærið. Ef hlutfall kvenna í tæknigeiranum fer ekki að hækka sjáum við fram á að konur verði án fulltrúa í störfum framtíðarinnar. Það er ábyrgð okkar allra að svo verði ekki.



Höfundur er blaðamaður og meðlimur Ungra athafnakvenna.





Skoðun

Sjá meira


×