Erlent

Óttast fleiri líkfundi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Viðbragðsaðilar reyna hvað þeir geta svo að varna megi því að blokk falli á hliðina eftir að fyrsta hæð hennar hrundi í skjálftanum á þriðjudag.
Viðbragðsaðilar reyna hvað þeir geta svo að varna megi því að blokk falli á hliðina eftir að fyrsta hæð hennar hrundi í skjálftanum á þriðjudag. Vísir/AP
Yfirvöld í Taívan lýstu því yfir í morgun að níu hefðu fundist látnir eftir jarðskjálftann, sem reið yfir eyjuna á þriðjudag. Enn er 62 saknað og óttast er að fleiri kunni að finnast látnir.

Björgunarsveitir reyna nú í kappi við tímann að þræða húsarústir, ekki síst í borginni Hualien sem skemmdist mikið í skjálftanum, sem var af stærðinni 6,4. Nú þegar hefur 192 íbúum borgarinnar verið bjargað en talið er að fjöldamargir séu enn fastir í rústum 12 hæða húss sem hýsti áður hótel, íbúðir og veitingastað. Hualien er vinsæll ferðamannastaður en þar búa að jafnaði um hundrað þúsund manns.

Rúmlega 800 manns hafa leitað skjóls í fjöldahjálparstöðvum og eiga þau í engin hús að venda eftir skjálftann. Þá eru fjöldamargir sem ekki treysta sér heim til sín enda nötrar eyjan enn. Rúmlega 23 milljónir manna búa í Taívan á landsvæði sem nemur um þriðjungi af flatarmáli Íslands.

Hundruð eftirskjálfta hafa mælst í Tavían síðan á þriðjudaginn. Tveir snarpir skjálftar, af stærðinni 5,3 og 6,1, riðu yfir landið á sunnudag en án teljandi skemmda. Þá eru tvö ár síðan annar 6,4 stiga jarðskjálfti skall á Taívan. Þá létust 117 manns.


Tengdar fréttir

Tíðir eftirskjálftar á Taívan

Fjöldi bygginga í Hualien eru mikið skemmdar og hingað til er vitað um fjóra sem létu lífið í skjálftanum sem varð síðdegis í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×