Erlent

Enn logar í olíuflutningaskipi í Kínahafi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekkert hefur spurst til áhafnar olíuflutningaskipsins eftir að eldur kom upp í því við árekstur á laugardagskvöld.
Ekkert hefur spurst til áhafnar olíuflutningaskipsins eftir að eldur kom upp í því við árekstur á laugardagskvöld. Vísir/AFP
Slæmt veður hefur torveldað björgunarstarf á Kínahafi þar sem enn logar eldur í olíuflutningaskipi sem lenti í árekstri við flutningaskip á laugardagskvöld. Rúmlega þrjátíu manna áhafnar skipsins er enn saknað og óttast er að meiriháttar umhverfisslys verði vegna olíuleka.

Skipið er um 260 kílómetra utan af Sjanghæ á austurströnd Kína. Um borð eru 130.000 tonn af þunnfljótandi olíu, léttari útgáfu af hráolíu sem talin er enn hættulegri fyrir umhverfið. Olían er sögð halda áfram að leka úr skipinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Lík eins skipverja hefur fundist en annars hefur ekkert spurst 31 skipverja sem var um borð í tankskipinu sem er í íranskri eigu. Þrjátíu úr áhöfninni voru Íranar en tveir frá Bangladess.

Mikið hvassviðri, rigning og allt að fjögurra metra háar öldur eru nú á slysstað. Því hefur gengið erfiðlega að ráða niðurlögum eldsins og að halda olíulekanum í skefjum.

Ekki liggur fyrir hvers vegna skipin tvö rákust á. Olíuflutningaskipið Sanchi var á leið með milljón tonn af olíu frá Íran til Suður-Kóreu þegar það lenti í árekstri við kínverskt fragtskip sem var að flytja korn frá Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×