Selfoss er sex mörkum yfir eftir fyrri leikinn gegn Dragunas, 34-28, en leikið var á Selfossi í kvöld í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð EHF-bikarsins.
Selfyssingar voru í raun sterkari frá upphafi og voru meðal annars 8-5 yfir um miðjan hálfleikinn. Þeir leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13.
Selfoss var að spila afar vel í leiknum og markvörðurinn Pawel Kiepulski var funheitur ásamt Hauki Þrastarsyni.
Að endingu unnu Selfyssingar leikinn með sex marka mun, 34-28, og eru því í góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem fer fram í Litháen um næstu helgi.
Einar Sverrisson skoraði átta mörk, Árni Steinn Steinþórsson sjö og Hergeir Grímsson sex. Haukur Þrastarson gerði fimm mörk ásamt því að eiga fjöldann allan af stoðsendingum.
