Héðinn Máni er fæddur árið 1999 og býr ásamt fjölskyldu sinni í Vogum á Vatnsleysuströnd. Fyrir fimm vikum greindist hann með sjaldgæfa tegund krabbameins, slímhimnukrabbamein, illkynja æxli í höfði.
„Þetta er náttúrulega ákveðið áfall. En ég bara reyni að lifa í núinu. Taka einn dag í einu og vera jákvæður,“ útskýrir hann.
Fær mikinn stuðning á Snapchat
Eins og flestir á hans aldri hefur Héðinn undanfarin ár haldið úti Snapchat-reikningi fyrir vini og vandamenn. Þegar hann greindist og fór í fyrstu lyfjameðferðina talaði hann um það á opinskáan hátt á sínu snappi, eins og það er kallað, og áður en hann vissi af voru fylgjendurnir orðnir nokkur þúsund.„Ég fæ spurningar frá allskonar fólki og það er aðallega verið að spyrja út í hvernig ég greindist með krabbameinið. Ég svara þeim oftast í story. Svo hef ég líka fengið mjög mikla hjálp í gegnum Snapchat. Frá fólki á mínum aldri sem hefur gengið í gegnum svipað. Mér finnst það bara mjög gott og góður stuðningur í því,“ segir Héðinn.
Með húmorinn að vopni
Héðinn hefur mikinn áhuga á kvikmyndagerð og segir að Snapchat sé að mörgu leyti líkt henni. Þannig sé hann að búa til stuttmyndir á hverjum degi. Hann er staðráðin í að takast á við veikindin með jákvæðni og húmor að vopni.„Það tók mig samt alveg smá tíma að melta að ég væri með þennan sjúkdóm. En ég hef bara alltaf verið þannig að ég er bara rosalega jákvæður. Á erfiðum tímum er gott að vera jákvæður. Ég ætla bara að rústa þessu eins og stríðsmaður.“
Hægt er að fylgjast með Héðni Mána á Snapchat undir notendanafninu heddimani.