Handbolti

Guðlaugur og Óskar: Erum með besta varnarlið landsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðlaugur bendir sínum mönnum á að halda ró.
Guðlaugur bendir sínum mönnum á að halda ró. Vísir/Ernir
Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eftir sjö marka sigur á FH í oddaleik í Kaplakrika í dag. Þjálfarar Vals, þeir Guðlaugur Arnarsson og Óskar Bjarni Óskarsson, voru vitaskuld hæstánægðir þegar Vísir hitti þá að leik loknum.

„Vörnin stóð bara gríðarlega vel, Siggi [Sigurður Ingiberg Ólafsson] kom í markið og þeir gátu ekki skorað hjá honum,“ sagði Guðlaugur þegar blaðamaður Vísis spurði hann hvað hefði eiginlega gerst í síðari hálfleik. Valsmenn unnu seinni hálfleikinn með 9 marka mun eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.

„Við vorum tiltölulega rólegir, vorum að fá okkur aðeins of mikið af hraðaupphlaupum þar sem við vorum ekki að hlaupa vel til baka í fyrri hálfleik. Við vissum að við þyrftum að ná okkar hraðaupphlaupum, halda ró og þá myndi þetta koma,“ sagði Óskar Bjarni en þeir félagar hafa myndað sterkt þjálfarateymi hjá Val í vetur.

„Við erum með besta varnarlið Íslands. Við erum búnir að vinna tvo titla á vörninni og það er mikið til Gulla að þakka. Við erum með stráka sem nenna að spila vörn, það er bara lykillinn,“ bætti Óskar Bjarni við.

Það hefur mikið gengið á hjá Val í vetur og þeir fóru meðal annars alla leið í undanúrslit Evrópukeppninnar þar sem þeir féllu úr leik á grátlegan hátt.

„Evrópuævintýrið gaf ótrúlegan kraft inn í hópinn, það er bara þannig,“ sagði Guðlaugur áður en hann var hlaupinn í verðlaunaafhendingu.

„Ég þarf að fara að taka á móti bikarnum,“ sagði Guðlaugur skælbrosandi að lokum.


Tengdar fréttir

Ýmir Örn: Liðsheildin skilaði þessu

"Tilfinningin er auðvitað alveg mögnuð. Ég veit ekki hvað ég á að segja, það var erfitt að vera útaf seinustu átta mínúturnar en þeir bara kláruðu þetta. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Ýmir Örn Gíslason leikmaður Vals í samtali við Vísi eftir sigurinn á FH í dag þar sem Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×