Sigtryggur Arnar Björnsson er í leikmannahópi Íslands í kvöld en karlalandsliðið spilar þá við Belgíu í Smáranum en þetta er fyrsti undirbúningsleikur liðsins fyrir Eurobasket.
Sigtryggur Arnar er eini nýliðinn í íslenska liðinu og spilar því fyrsta A-landsleikinn sinn í kvöld. Logi Gunnarsson er hinsvegar sá reyndasti en hann spilar sinn 131. A-landsleik í Smáranum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.15.
Sigtryggur Arnar lék á sínum tíma með Breiðabliki og er því að stíga fyrstu landsliðsskrefin á gamla heimavellinum.
Sigtryggur Arnar fór á kostum með Skallagrími í Domino´s deildinni á síðustu leiktíð og var þá með 18,0 stig, 5,8 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Skallagrímur féll hinsvegar úr deildinni og Arnar hefur nú samið við Tindastól um að leika á Króknum í vetur.
Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij eru hvorugur með í þessum leik ekki frekar en miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason sem er að safna kröftum eftir EM 20 ára liða líkt og þeir Kári Jónsson og Kristinn Pálsson. Íslendingar hafa efni á því að hafa tvo sjö feta leikmenn utan hóps í leiknum í kvöld því Ragnar Ágúst Nathanaelsson hvílir líka.
Leikmannahópur Íslands á móti Belgíu í kvöld:
Bakverðir
3 - Ægir Þór Steinarsson
10 - Elvar Már Friðriksson
12 - Sigtryggur Arnar Björnsson
13 - Hörður Axel Vilhjálmsson
14 - Logi Gunnarsson
15 - Martin Hermannsson
Framherjar
6 - Kristófer Acox
21 - Ólafur Ólafsson
24 - Haukur Helgi Pálsson
88 - Brynjar Þór Björnsson
Miðherjar:
7 - Sigurður Gunnar Þorsteinsson
8 - Hlynur Bæringsson
