„Þó forseti fái ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu er vinnutíminn nokkuð langur, en nýleg tímaskráning á starfi forsetans sýnir að hann vinnur um 60 klukkustundir á viku,“ segir í fréttinni á vef ASÍ.
Töluverð umræða hefur verið um launaþróun í íslensku samfélagi og þá sérstaklega ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands verulega í nóvember síðastliðnum.

Bæði VR og ASÍ skoruðu á kjararáð að endurskoða ákvörðun sína en engin endurskoðun var gerð á ákvörðuninni.
Forseti Íslands ákvað þó sjálfur að hækkun sinna launa myndi renna til góðgerðamála.
Í framhaldinu var nokkuð fast skotið á formann VR og forseta ASÍ sem einnig hafa hækkað umtalsvert í launum undanfarin ár, langt umfram almenna launaþróun.
Raunar eru laun beggja verkalýðsforingja hærri en sem nemur þingfararkaupi.
Laun Ólafíu B. Rafnsdóttur, fráfarandi formanns VR, hækkuðu um 43 prósent á tveimur árum og eru nú um 1430 þúsund krónur.
Nýr formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, hefur sagt það forgangsmál að lækka sjálfan sig í launum um 300 þúsund krónur.

Í frétt ASÍ er bent á að meðaltal heildarlauna á almennum vinnumarkaði, samkvæmt könnun Hagstofu Íslands, hafi verið 708 þúsund krónur árið 2016. Laun Gylfa séu því ríflega tvöfalt þau meðalllaun sem séu á almennum vinnumarkaði.
„Ef tekið er tillit til vinnutíma og vinnustundum deilt í heildarlaun þá er forseti ASÍ með 1,4 sinnum meðallaun á almennum vinnumarkaði,“ segir í fréttinni.
Er vísað til þeirra 60 klukkustunda sem Gylfi skrái að jafnaði á sig í vinnu í viku hverri.