Erlent

Gagnrýni á fjárfestingu í lyfjafyrirtæki

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Lyfjafyrirtækið Roche krafðist hárra greiðslna.
Lyfjafyrirtækið Roche krafðist hárra greiðslna. vísir/eyþór
Heilbrigðisráðherra Noregs, Bent Høie, og aðrir háttsettir einstaklingar í heilbrigðisgeiranum hafa harðlega gagnrýnt lyfjafyrirtækið Roche sem er meðal fyrirtækja sem norski Olíusjóðurinn, lífeyrissjóður Norðmanna, hefur fjárfest hvað mest í.

Norska ríkisútvarpið greinir frá því að heilbrigðisráðherrann hafi oft gagnrýnt lyfjafyrirtækið fyrir að draga það á langinn að bjóða verð sem norsk yfirvöld hafa getað sætt sig við. Eftir þriggja ára samningaviðræður við Roche hefur nú sérstök nefnd ákveðið að bjóða sjúklingum á norskum sjúkrahúsum brjóstakrabbameinslyfið Kadcyla án endurgjalds.

Þingmaður Miðflokksins í Noregi, Kjersti Toppe, segir það skjóta skökku við að ríkið skuli í gegnum Olíusjóðinn fjárfesta í lyfjafyrirtækinu Roche samtímis því sem heilbrigðisráðherrann gagnrýnir það fyrir siðleysi gagnvart norskum sjúklingum með því að krefjast hárra greiðslna fyrir mikilvæg lyf. Olíusjóðurinn átti í mars síðastliðnum hlutabréf fyrir 37,2 milljarða norskra króna í fyrirtækinu.

Ráðherrann segir ekkert athugavert við fjárfestingu í lyfjafyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×