Erlent

Þrýst á leiðtoga sænskra hægrimanna að stíga til hliðar

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Kinberg Batra hefur leitt Moderaterna frá árinu 2015.
Anna Kinberg Batra hefur leitt Moderaterna frá árinu 2015. Vísir/EPA
Ungliðahreyfing, sveitarstjórnarmenn og nokkur svæðissambönd sænska Hægriflokksins (Moderaterna) hafa farið fram á að Anna Kinberg Batra láti af formennsku í flokknum.

Kinberg Batra hefur leitt flokkinn frá 2015 þegar hún tók við af Fredrik Reinfeldt sem gegndi embætti forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 2006 til 2014. Verulega hefur dregið úr fylgi flokksins í skoðanakönnunum á síðustu mánuði.

Kjell Jansson, sveitarstjórnarmaður flokksins í Stokkhólmi og áhrifamaður í flokknum, segir flokkinn hafa misst tengslin við kjósendur og að fylgi í skoðanakönnunum sé komið niður í tölur sem flokksmenn hafi ekki séð í um þrjátíu ár.

Svæðissambönd flokksins í Stokkhólmi, Uppsölum, Västerbotten, Gotlandi, Dölunum, Södermanland og Örebro hafa öll samþykkt ályktanir þar sem farið er fram á afsögn Kinberg Batra. SVT greinir frá þessu. 

Fleiri svæðissambönd munu tilkynna í dag hvort þau styðji Kinberg Batra eða hvort þau vilji að hún segi af sér. Átta svæðissambönd þarf til að atkvæðagreiðsla um stöðu formanns fari fram.

Flokkurinn hefur í könnunum mælst með um fimmtán present fylgi að undanförnu, en í kosningunum fyrir þremur árum hlaut flokkurinn 23 prósent atkvæða.

Kinberg Batra greindi frá því á blaðamannafundi í gær að hún hafi ekki hug á að segja af sér.

Þingkosningar eru næst haldnar í Svíþjóð haustið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×