Erlent

Vann rúma 82 milljarða í Powerball-lottóinu

Atli Ísleifsson skrifar
Alls tóku um 9,4 milljónir miðahafar þátt í útdrættinum.
Alls tóku um 9,4 milljónir miðahafar þátt í útdrættinum. Vísir/AFP
Heppinn miðahafi í bandaríska Powerball-lottóinu vann 758,7 milljónir Bandaríkjadala, rúma 82 milljarða íslenskra króna, í útdrætti næturinnar. Miðinn var seldur í Handy Variety-verslun í bænum Watertown í Massachusetts, um fimmtán kílómetrum vestur af Boston.

Alls tóku um 9,4 milljónir miðahafar þátt í útdrættinum, en vinningspotturinn var sá næststærsti í sögu Powerball-lóttósins.

Stærsti vinningspotturinn var 1,6 milljarðar Bandaríkjadala, sem samsvarar um 170 milljarða íslenskra króna á núvirði. Þrír miðahafar deildu pottinum þá á milli sín.

Vinningstölurnar í nótt voru 6, 7, 16, 23 og 26. „Ofurtalan“ (e. powerball) var 4. Í frétt Good Morning America segir að líkurnar á að hitta á rétta röð eru einn á móti 292,2 milljónum.

Vinningshafinn mun fá upphæðina greidda út í þrjátíu greiðslum sem dreifast á næstu 29 ár.

Potturinn í næsta útdrætti verður 40 milljónir Bandaríkjadala, um 4,3 milljarðar króna. Powerball-lottóið er spilað í 44 ríkjum Bandaríkjanna, Washington DC, Puerto Rico og Bandarísku jómfrúreyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×