Handbolti

Ungverjar komnir á blað | Annar sigur Egypta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nandor Fazekas getur verið erfiður viðureignar í markinu.
Nandor Fazekas getur verið erfiður viðureignar í markinu. vísir/epa
Ungverjaland náði í sín fyrstu stig á HM 2017 í handbolta í dag þegar liðið lagði Síle, 34-29. Ungverjar töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á móti Þýskalandi og Króatíu.

Sigurinn var nokkuð torsóttur fyrir Xavi Sabate og hans menn en hann þjálfar líka Aron Pálmarsson hjá ungverska meistaraliðinu Veszprém. Þegar fimmtán mínútur voru eftir var Ungverjaland aðeins með tveggja marka forskot, 27-25.

Ungverska liðið gekk frá leiknum á lokasprettinum og vann á endanum fimm marka sigur. Þó alls ekki nógu sannfærandi frammistaða hjá þessu annars vel mannaða liði.

Iman Jamali var markahæstur Ungverja í dag með sjö mörk úr átta skotum en Adam Huhasz skoraði fimm mörk líkt og leikstjórnandinn magnaði, Maté Lekai. Gamla kempan Nandor Fazekas varði átta skot í markinu.

Ungverjar eru nú með tvö stig í C-riðli og eru í baráttunni um þriðja sætið en eins og búist var við eru Þýskaland og Króatía að berjast um efsta sætið.

Í D-riðli vann Egyptaland tveggja marka sigur á Barein, 31-19. Þrjú lið frá austurlöndum fjær eru í riðlinum og er Egyptaland með fullt hús í þeim slag, en það vann Katar einnig með tveimur mörkum í fyrstu umferðinni.

Yehia elderaa var markahæstur Egypta í leiknum með sex mörk í sex skotum en Eslam Eissa skoraði fimm mörk úr sex skotum.

Egyptaland er með fjögur stig líkt og Danmörk og Svíþjóð en þau mætast í kvöld í Íslendingaslag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×