Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Stjarnan 31-26 │Þriðji sigur Selfyssinga í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
Einar Sverrisson skoraði sjö mörk.
Einar Sverrisson skoraði sjö mörk. Vísir/Anton
Selfoss vann fimm marka sigur á Stjörnunni, 31-26, í 12. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Stjarnan hafði unnið fyrri leik liðanna og voru liðin nánast jöfn í deildinni og því mátti búast við jöfnum leik.

Selfyssingar höfðu að lokum sigur sem virtist aldrei í hættu. Frábær fyrri háfleikur skilaði þeim 16 mörkum og á síðustu 10 mínútunum í seinni hálfleik gerðu þeir út um leikinn fyrir fullt og allt.

Góður sigur fyrir framan fulla stúku og ef Selfoss heldur dampi geta þeir virkilega farið að blanda sér í toppbaráttuna.

Af hverju vann Selfoss?

Góður varnarleikur lagði grunninn að góðum sigri. Stjarnan byrjaði vel en missti svo aðeins dampinn og í kjölfarið fór Selfyssingar í gang. Sókn og vörn smullu saman út hálfleikinn og var staðan góð í hálfleik.

Aftur byrjuðu gestirnir betur seinni hálfleikinn og náðu að gera þetta að leik aftur en á síðustu 10 mínútunum þegar Stjarnan fór að taka meiri áhættur misstu þeir Selfoss langt fram úr sér og þá var ekki aftur snúið.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Þrastarson, sem fékk titilinn leikmaður 11. umferðar var aftur frábær í kvöld með 8 mörk. Einar Sverrisson og Hergeir Grímsson voru sömuleiðis með 7 mörk og áttu stórgóðan leik. Helgi varði oft vel og þá stungu Teitur og Ævar Atli oft upp hausnum með mörk.

Egill Magnússon var markahæstur hjá Stjörnunni með 7 mörk og Leó Snær átti flottan leik.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur var ekki góður fyrir gestina. Varnarleikurin var ekki upp á marga fiska á meðan Selfyssingar léku á als oddi í sókninni. Markvarsla var engin hjá Stjörnunni.

Selfoss spilaði 3-3 vörn lengst af og virtist það slá Stjörnuna út af laginu. Þessi maður-á-mann vörn Selfyssinga gekk fullkomlega upp og má gefa Patreki Jóhannessyni þjálfara lof fyrir þennan taktíska sigur.

Hvað gerist næst?

Stjarnan tekur á móti sterku liði ÍBV á eftir tæpa viku í frestuðum leik. Selfyssingar mæta í Grafarvoginn og freista þess að ná í stig gegn Fjölni sem eru í botnbaráttu.

Patrekur: Æðislegur heimavöllur

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var auðvitað virkilega ánægður með leik sinna manna í kvöld.

„Fimm marka sigur á móti góðu liði Stjörnunnar, þetta eru tvö góð stig og ég er mjög ánægður,“ sagði Patrekur.

„Auðvitað fær maður sjálfstraust þegar maður vinnur leiki. En við þurftum að hafa fyrir því. Það sem ég er helst ánægður með er að við spilum aggressíft allan leikinn, ég þurfti lítið sem ekkert að vera að skipta leikmönnum og það var svolítið test hjá mér. Auðvitað hefði ég getað róterað aðeins í lokin en ég vildi bara sjá hvernig við myndum klára 60 mínútur sem við gerðum mjög vel og unnum sanngjarnt.“ 

Selfoss spilaði öðruvísi vörn en undanfarna leiki og virtist það skila sér vel.

„Einar var líka búinn að stúdera okkur og jú, okkur gekk ágætlega. Til þess að byrja með vorum við í vandræðum en ég var ánægður með orkuna og kraftinn. Við sýnum góða liðsheild og margir spila vel. Einar Sverris heldur uppteknum hætti frá á móti Víkingi. Síðan eigum við Elvar og Guðna inni sem er bara gott mál,“ sagði Patrekur.

„Þetta er æðislegur heimavöllur og ég er mjög ánægður að spila leikina hérna og okkur líður vel hérna.“

Einar: Vorum miklir klaufar

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var auðvitað vonsvikinn með niðurstöðuna.

„Að sjálfsögðu eru það vonbrigði að vinna ekki í kvöld. Frammistaðan var ekki nógu góð og það voru kannski helstu vonbrigðin,“ sagði Einar.

„Vörn og markvarsla var bara léleg í 60 mínútur. Það kemur 10 mínútna kafli í sitthvorum hálfleiknum meðan við erum ekki með nein stopp okkar megin, þá dettum við niður sóknarlega sem reynist okkur dýrkeypt.“

Stjarnan kom ágætlega til baka eftir að hafa verið þónokkrum mörkum undir í hálfleik en missa leikinn svo frá sér í lokin.

„Við byrjuðum ágætlega en svo kemur þessi kafli og þeir ná þessu forskoti. Við erum flottir fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik og erum komnir vel inn í leikinn og hefðum að mínu mati getað gert betur á kafla þar. Við vorum miklir klaufar og köstum þessu svolítið frá okkur undir restina,“ sagði Einar að endingu.

Einar: Fyrri hálfleikurinn var virkilega flottur

Einar Sverrisson, skytta Selfoss, var að vonum ánægður með leikinn.

„Virkilega sáttur með þessi tvö stig. Við gerðum það sem við ætluðm að gera í dag. Það var helst seinni hálfleikurinn, hefðum átt að taka hann aðeins alvarlegra. Fyrri hálfleikurinn virkilega flottur, bæði varnarlega og sóknarlega, við komum okkur í góða stöðu,“ sagði Einar.

„Þeir minnka muninn í tvö mörk í seinni hálfleikinn. Mér fannst karakterinn og andinn í liðinu í dag mjög góður, þetta var klassa sigur.“

„Maður fann það á strákunum, við vorum allir þéttur pakki og samheldnin skilaði þessum sigri enn og aftur, eins og í mörgum öðrum leikjum upp á síðkastið. Þetta er flott, en við þurfum að halda dampi. Þótt að það sé komin smá pása núna innan gæsalappa, þá þurfum við að nýta helgina vel og hugsa vel um okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.