Erlent

Áætlanir Bandaríkjanna sagðar marklausar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælendur á vegum Hezbollah-samtakanna í Líbanon brenndu ísraelskan fána í mótmælaskyni í gær.
Mótmælendur á vegum Hezbollah-samtakanna í Líbanon brenndu ísraelskan fána í mótmælaskyni í gær. Nordicphotos/AFP
Ekki kemur til greina af hálfu Palestínumanna að samþykkja nokkra áætlun Bandaríkjamanna um frið á milli Palestínumanna og Ísraela. Þetta sagði Mahmoud Abbas Palestínuforseti í gær og sagði ástæðuna vera viðurkenningu Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis.

Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í málefnum Mið-Austurlanda, þróar nú nýja rammaáætlun um frið í heimshlutanum. Þeirri áætlun hefur Abbas nú hafnað fyrirfram. Að hans mati er óásættanlegt að Bandaríkin hafi milligöngu um að koma á friði.

„Bandaríkin hafa sjálf sýnt fram á að þau séu óheiðarlegur milliliður í friðarferlinu og við getum ekki lengur sætt okkur við neinar áætlanir þeirra,“ sagði Abbas á blaðamannafundi í Palestínu.

Síðast höfðu Bandaríkjamenn milligöngu um friðarviðræður þjóðanna tveggja í apríl 2014. Ekkert kom þó út úr þeim viðræðum.

Ákvörðun Trumps um viðurkenninguna og flutning sendiráðs Bandaríkjanna frá Tel Avív til Jerúsalem hefur vakið mikla reiði, einkum í múslimaríkjum. Harðlega hefur verið mótmælt í Palestínu. Greint var frá því í gær að 24 ára Palestínumaður hefði látist í átökum við ísraelska hermenn á Gasasvæðinu. Þá hafa mótmæli leitt til ofbeldis á Vesturbakkanum, meðal annars í Betlehem.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafnaði á fimmtudag áformum Trumps. Samþykkti það ályktun sem Jemenar og Tyrkir lögðu fyrir þingið um að allar ákvarðanir er varða stöðu Jerúsalem skyldu ógiltar og ómerktar. 128 ríki, Ísland þar á meðal, greiddu atkvæði með tillögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×