Lífið

Gagnrýnd fyrir brjóstagjöf á almannafæri: „Brjóst eru ekki kynferðisleg“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Brittni segir eðlilegt að gefa brjóst á almannafæri.
Brittni segir eðlilegt að gefa brjóst á almannafæri. Vísir / Facebook - Brittni Medina
Bandaríska, tveggja barna móðirin Brittni Medina fer reglulega í skemmtigarðinn Disneyland með eiginmanni sínum og sonum þeirra tveimur, en annar snáðinn er tíu mánaða gamall og enn á brjósti.

Brittni og fjölskylda hennar heimsótti garðinn í þessum mánuði og þegar yngri sonur hennar varð svangur, byrjaði hún að gefa honum brjóst á almannafæri. Sumum gestum líkaði það alls ekki.

„Ég stóð í mjög langri röð í myndatöku þegar sonur minn varð svangur og ég ætlaði ekki að bíða í röðinni aftur. Þannig að ég dró niður bolinn og gaf honum brjóst,“ skrifar Brittni í færslu á Facebook sem hún deildi í hópnum Breastfeeding Mama Talk. Fljótlega heyrði Brittni að konur, sem hún þekkti ekki neitt, byrjuðu að gagnrýna hana fyrir að gefa brjóst þannig að hún svaraði fyrir sig.

„Þessar konur létu ljót orð falla um mig þannig að ég færði mig til að ná mynd af mér með þeim. Ekki til að vekja athygli á sjálfri mér heldur á þeirri staðreynd að KONUR EIGI EKKI AÐ FINNA FYRIR SKÖMM FYRIR AÐ GEFA BÖRNUM SÍNUM, ÁN ÞESS AÐ HYLJA SIG.“

Þegar þetta er skrifað er búið að skrifa tæplega tvö þúsund athugasemdir við færsluna og deila henni rúmlega þúsund sinnum. Margar athugasemdirnar eru jákvæðar en sumir halda því fram að hún ætti að gefa barni sínu brjóst án þess að sýna svona mikið hold.

„Já, ekki allir eru sammála. Í fyrsta lagi þarf ég ekki samþykki ykkar!“ skrifar Brittni í svari sínu til fólks og heldur áfram.

„Brjóst eru ekki kynferðisleg! Ef þið getið ekki sagt börnunum ykkar að annað barn sé að borða, þá er það ekki mitt mál. Er ég vanalega svona „óvarin“ þegar ég gef syni mínum? Nei! En það eru ekki allar stundir í móðurhlutverkinu mjög glæstar!“

Brittni segir enn fremur að myndin gefi raunsæja mynd af brjóstagjöf og að samfélagið þurfi að samþykkja brjóstagjöf á almannafæri. 

„Ég bjóst ekki við að þessi mynd færi um allt á netinu. Auðvitað er þetta ekki besta myndin af mér en ég elska hana því, eins og ég skrifaði áður, eru ekki allar stundir sem móðir mjög glæstar.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.