Innlent

Óheimilt að tjalda hvar sem er á Suðurlandi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óvíst er hvaða áhrif breytingin hefur á húsbílaleigur.
Óvíst er hvaða áhrif breytingin hefur á húsbílaleigur. vísir/vilhelm
Nú er óheimilt að gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum, fellihýsum, tjaldvögnum eða öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldsvæða á Suðurlandi. Þetta er meðal þess sem finna má í nýrri lögreglusamþykkt sveitarfélaga í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni og sveitarfélögunum segir að nýja lögreglusamþykktin muni einfalda störf lögreglunnar til muna. Áður hafi verið í gildi mismunandi samþykktir fyrir hvert sveitarfélag. Slíkt hafi skapað vandræði.

Meðal annarra ákvæða sem finna má í samþykktinni eru málefni sem hafa verið í umræðunni í tengslum við fjölgun ferðamanna. Óheimilt er nú í umdæminu að ganga örna sinna eða kasta af sér þvagi á almannafæri eða á lóð, land eða híbýli annars manns. Sá sem það gerir skal hreinsa upp eftir sig.

„Mikið hefur verið í umræðunni að ferðamenn séu að tjalda og leggja ferðavögnum á ýmsum stöðum í landshlutanum sem ekki er leyfilegt. Staðreyndin er sú að langflestir ferðamenn vilja breyta rétt og fara að lögum og reglum þar sem þeir koma,“ segir Gunnar Þorgeirsson formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×