Innlent

Ferðamaður tekinn á 141 á Reykjanesbraut

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ferðamann á dögunum sem ók á 141 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ferðamaðurinn hafi greitt sektina á staðnum.

Alls hafa átta ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu á undanförnum dögum.

Þar að auki voru skráningarmerki fjarlægð af fáeinum bílum sem voru ótryggðir og óskoðaðir. Einnig var einn ökumaður tekinn fyrir að keyra án réttinda.

Einn ökumaður var hins vegar handtekinn í gær vegna ölvunar og reyndist hann einnig hafa verið sviptur ökuréttindum til ársins 2022. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni var maðurinn áberandi ölvaður þegar þeir ræddu við hann og þar að auki hafði hann ekið um á sprungnu dekki.

Sömuleiðis var einn ferðamaður stöðvaður fyrir ölvun við akstur. Hann mun hafa ekið um Grindavíkuveg á camper-bíl ásamt félaga sínum. Lögregluþjónar tóku lykla bílsins. Einn ökumaður var stöðvaður, grunaður um fíkniefnaakstur og fannst poki af efnum sem lögreglan telur vera kannabisefni í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×